Ólétt skömmu eftir keisaraskurð?

Spurning:
Barnið mitt er nú 7 mánaða og var tekið með keisaraskurði, nú hef ég uppgötvað að ég er ólétt á ný, skv. blóðprufu væntanlega komin 5 vikur á leið. Spurningin mín er hvort óhætt sé að ganga með þetta barn, hvort saumarnir séu nægjanlega grónir? Hef fundið mikið fyrir samdráttum allt frá uppskurðinum. Veit ekki hvort máli skiptir að þetta væri þá mitt fjórða, fyrstu 2 fæddust eðlilega. Eru ekki einnig allar líkur á að það verði aftur keisari í þetta skiptið? Annað: er mögulegt að gera ófrjósemisaðgerð samfara keisaraskurði?
Svar:

Það fylgir því alltaf viss áhætta að ganga með barn eftir keisaraskurð en þú ættir að vera orðin allvel gróin núna. Margar konur finna samdráttarverki í leginu í töluverðan tíma eftir keisaraskurð og er það alveg eðlilegt þar sem legið dregur sig saman utan um sauminn og að auki er saumaskapur allt í kring um það. Einnig finna margar konur samdráttarverki í upphafi meðgöngu þegar legið tekur að stækka, hvort sem þær hafa fætt áður eða ekki. Hafir þú fætt eðlilega áður er ekki víst að þú þurfir keisaraskurð í þetta sinn en það er hægt að gera ófrjósemisaðgerð um leið og keisarann ef konan óskar eftir því.

Það sem ég teldi best í stöðunni hjá þér væri að tala sem fyrst við góðan kvensjúkdómalækni sem gæti farið í gegnum þetta með þér og skoðað þig með tilliti til þess hvort ekki er óhætt fyrir þig að ganga með barnið og hvernig best væri að haga meðgöngueftirliti.

 

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir