Óregla á blæðingum?

Spurning:

42 ára – kona

Góðan daginn, ég ætla að spyrja fyrir vinkonu mína þar sem hún er ekki með tölvu.

Málið er, hún missti úr blæðingar í síðasta mánuði (hafa verið nokkuð reglulegar hingaðtil) hún er ekki á getnaðarvörnum (lét taka sig „úr sambandi “ fyrir ca 10 árum) og er þar að auki búin að taka þungunarpróf sem kom neikvætt út.

Núna er hún byrjuð á blæðingum, og þær eru búnar að standa yfir í 10 daga. Hana langaði að vita hvort þetta væri eðlilegt eftir að hafa misst einn tiðahring úr, eða … ??

p.s. Hún er 41 árs.

Fyrirfram takk fyrir svör, kveðja.

Svar:

Sæl og blessuð.

Það er ekki ólíklegt að það sem hér er að gerast sé upphafið að breytingaskeiðin en fyrsta einkennið er gjarnan óregla á blæðingunum. Breytingaskeiðið er sumum konum erfitt en flestar fara í gegnum það óþægindalítið og sjá marga góða kosti við það.  Ég vil benda ykkur á tvær ágætar greinar um breytingaskeiðið inni á doktor.is þ.e.

https://doktor.is/Article.aspx?greinid=3596

en þar fjallar Jórunn Frímannsdóttir hjúkrunarfræðingur almennt um breytingaskeið kvenna og einnig

https://doktor.is/Article.aspx?greinid=893

en sú grein fjallar um hormónameðferð tengda breytingaskeiðinu. Það er þó fjarri því að allar konur þurfi meðferð því tengdu heldur er hér um að ræða eðlilegt tímabil í lífi konunnar, tímabil sem margar konur líta jákvæðum augum.

Þar sem þú ert áskrifandi getur þú prentað þessar greinar út og gefið vinkonu þinni.

Bestu kveðjur og ósk um vellíðan ykkar beggja,

Þórgunnur Hjaltadóttir,

Ritstjóri doktor.is