Óreglulegur tíðahringur – getur pillan hjálpað?

Spurning:

Mig langar til að spyrja um tíðahringinn. Frá því ég byrjaði á blæðingum, hafa þær alltaf verið frekar reglulegar, oftast þessir venjulegu 28 dagar.
Svo í haust hefur liðið miklu skemmri tími á milli. Ég hef verið með blæðingar á u.þ.b. 20 daga fresti, stundum hafa þær farið niður í 14 daga (þ.e. frá fyrsta degi blæðinga að fyrsta degi næstu blæðinga). Er einhver ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessu? Er eitthvað sem ég get gert til að reyna að koma reglu á tíðahringinn? Ég er 19 ára og veit ekki um neitt sem er öðruvísi nú en áður sem gæti haft áhrif á þetta. Ég er ekki á pillunni, en myndir þú ráðleggja mér að prófa að taka hana í einhvern tíma og sjá hvort þetta lagist?

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Það er ekkert sem mælir gegn því að þú prófir að taka pilluna um tíma, einkum ef þú þarft á getnaðarvörn að halda, en þá þarftu að hafa í huga að sú regla sem kemst á er vegna pillunnar, en þín fyrri blæðingaróregla liggur í dvala á meðan. Þar sem þú virðist ekki hafa nein óþægindi vegna þessa, held ég þú getir beðið róleg enn um hríð, sbr. framansagt.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr. med.