Óreglulegur tíðahringur – reyni að verða þunguð

Spurning:

Sæl Dagný.

Ég er tvítug og er að reyna að verða ófrísk. Ég hef verið á pillunni í 6 ár (næstum samfleytt) og hætti á henni 25. ágúst. Ég hafði blæðingar síðast 8. október og er því þessi tíðahringur orðinn 54 dagar. Ég tók þungungarpróf í fyrradag sem var neikvætt. Getur verið að egglos hafi orðið svona seint hjá mér? Er það ekki rétt skilið hjá mér að þó að tíðahringurinn sé misjafn að lengd hjá konum, að þá sé egglos yfirleitt um 14 dögum fyrir blæðingar? Einnig er ég líka oft með verki í móðurlífinu og hef þess vegna oft haldið að ég sé alveg að fara að byrja. Er þetta eðlilegt?

Með fyrirfram þökk og von um svar.

Svar:

Sæl.

Það kemur fyrir að tíðahringurinn raskast eftir pillunotkun. Það varir þó yfirleitt stutt. Það er rétt hjá þér að egglos verður 14 dögum fyrir blæðingar. Ef tíðahringurinn lengist er það því fyrri hluti hans sem lengist. Þessir fyrirtíðaverkir geta bent til þess að tíðir séu yfirvofandi, en oft koma svona verkir í byrjun meðgöngu þegar legið er að stækka. Þá hefði þungunarprófið þó átt að verða jákvætt. Ef blæðingar byrja ekki fljótlega ættirðu að gera annað þungunarpróf og ef það er líka neikvætt væri skynsamlegt að tala við kvensjúkdómalækni sem getur komið reglu á blæðingarnar þínar með lyfjum.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir