Orkuþörf móður með barn á brjósti

Spurning:

Góðan dag,

Mig langaði að forvitnast hver orkuþörf mín er, nú þegar ég er með barn á brjósti?

Takk fyrir

Svar:

Ef miðað er við að kona sé einungis með barnið á brjósti, framleiðir hún um 700-800 ml af mjólk á dag. Ef brjóstið er gefið í 6 mánuði þá er áætlað að hún þurfi um það bil 620 kkal aukalega á dag (miðað við orkuneyslu fyrir þungun). Það er mikill breytileiki milli kvenna hvað varðar magn og jafnvel samsetningu mjólkurinnar og þar með orkukostnað við framleiðslu hennar. Þessar tölur eru því aðeins gefnar til viðmiðunar en erfitt er að segja nákvæmlega til um orkuþörf einstakra kvenna. Á meðgöngu safnar konan á sig fitu, orkuforða sem síðan er notaður til mjólkurframleiðslunnar. Það má því hugsa dæmið þannig að konan þurfi um það bil 300 kkal meira frá mat en noti síðan fituforðann fyrir það sem upp á vantar. Með þessu ætti konan að léttast eðlilega. Það verður einnig að taka hreyfingu með í reikninginn, en þessar tölur að ofan miðast við það að konan hreyfi sig jafn mikið og hún gerði fyrir þungun.

Konur með barn á brjósti ættu að halda áfram að borða hollan mat úr öllum fæðuflokkum og alls ekki fara í megrun. Lítil orkuinntaka getur haft áhrif á mjólkurframleiðslu og ef konur með barn á brjósti nærast illa þá er hætta á að kraftarnir minnki og foreldrahlutverkið verði erfiðara vegna þreytu móðurinnar – og hún jafnvel gefist upp á brjóstagjöfinni. Borðið því vel af hollum mat og njótið þess að hafa barnið á brjósti, en brjóstamjólk er lang besta næringin sem barnið getur fengið fyrstu mánuðina og forréttindi að geta veitt barninu hana.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur