Öryggi þrígilds bóluefnis?

Spurning:

Sæll.

Mig langar að fá að vita hvort ekki ætti að vera hægt að fá þessa sprautu í þrennu lagi. Nú á ég lítinn engil sem er 15 mán. Ég er svolítið hrædd við þessa sprautu sérstaklega þar sem ég hef með eigin augum séð barn breytast alvarlega eftir 2 ára aldur, var mjög glatt og opið fyrir þann tíma, en fór að vera með mjög sérkennilega hegðun eftir það. Nú orðið 14 ára er loksins búið að greina það með athyglisbrest og vanvirkni.

Því spyr ég, gætu ekki verið fleiri andlegir sjúkdómar en einhverfa sem hugsanlega gætu orsakast af þessari sprautu. Ég hef einnig dæmi um barn með vatnshöfuð sem ekki fékk sprautuna, af hverju ef hún er alveg hættulaus? Á ég að taka áhættuna að barn sem ég á og er alveg heilbrigt í dag (tók reyndar 15 ár að búa hana til) verði jafnvel einhverft eða eitthvað annað sem á eftir að gera allt líf þess mjög erfitt.

Með von um að þú skiljir þessar vangaveltur mínar.

Svar:

Ágæta móðir.

það er satt að mikil umræða hefur átt sér stað um öryggi þrígilds bóluefnis gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum (MMR). Staðhæfingar aðallega eins vísindamanns hafa verið hraktar á mjög sannfærandi hátt af fjölda vísindamanna sem hafa athugað málið frá mörgum hliðum og í ýmsum löndum Evrópu og vestanhafs. Því er engin ástæða fyrir þig að hafa áhyggjur af öryggi MMR bóluefnisins og ég hvet þig til að bólusetja barnið þitt er það verður 18 mánaða. Sjúkdómarnir sem bólusett er gegn eru margfalt hættulegri en hugsanlegir fylgikvillar bólusetningarinnar. Hér á landi og annars staðar þar sem ég þekki til – er ekki farið að gefa MMR í þremur mismunandi sprautum, enda enginn sem veit hvaða aukaverkanir við kæmum þá til með að hafa áhyggjur af. Ef þú vilt afla þér frekari upplýsinga um öryggi MMR bóluefnisins vil ég benda þér á heimasíðu landlæknisembættisins/sóttvarnalæknir.

Bestu kveðjur,
Geir Gunnlaugsson, barnalæknir
Miðstöð heilsuverndar barna.

Geir er formaður Félags um lýðheilsu, lydheilsa.is