Óværð og ælur ungabarns

Fyrirspurn:

Sonur minn, 7 vikna, gubbar upp 55-60 ml. af 160 ml. mjólkinni sinni (þurrmjólk) og er mjög óvær og erfiður. Okkur var ráðlagt að gefa honum ekki oftar að drekka en á 3-4 tíma fresti en hann virðist oft svangur. Er hægt að gefa svona ungum börnum pínu graut? Eða hvenær má í fyrsta lagi byrja að gefa þeim eina teskeið?

Svar:

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Afar algengt er að ungabörn æli, oftast er það vegna vanþroska í vöðvum sem stýra magaopinu og þroskast það með tímanum. Það sem skiptir mestu máli er hvort hann þyngist eðlilega. Ef hann er að þyngjast þarf ekki að hafa eins mikla áhyggjur af ælunum sem slíkum.

Hins vegar er óværðin vísbending um einhverskonar vanlíðan og full ástæða til að láta kíkja á guttann og athuga hvort eitthvað geti verið að angra hann sem hægt sé að laga.

Sogþörf er missterk hjá ungabörnum og virðist hún aukast þegar þeim líður illa – þau fá einhverskonar huggun í því að sjúga og er það oft misskilið af okkur fullorðna fólkinu sem merki um hungur. Meltingarvegur þeirra er hins vegar afar vanþroskaður og gæti það hreinlega aukið vanlíðan hans að fá graut strax þar sem hann ætti í erfiðleikum með að melta hann og getur það leitt til fleiri vandamála.

Það er afar erfitt að vera með óvært barn og hvet ég ykkur til að fá fullvissu um að ekkert sé að drengnum eins og áður sagði. Þegar þið hafið fengið þá fullvissu þurfið þið að nýta ættingja og vini til að hjálpa ykkur í gegnum þetta tímabil með því að leysa ykkur af svo þið fáið hvíld öðru hverju og munið að þetta er tímabil sem líður hjá og lagast.

 

Með bestu kveðju

Guðrún Gyða hjúkrunarfræðingur