Óvenjulegur tíðahringur og verkur í hnjám?

Spurning:

Sæll.

Fyrir um mánuði átti ég að byrja á blæðingum, sem ég og gerði. Blæðingarnar
hafa þó í raun ekki byrjað eins og ég þekki þær. Þetta hafa verið smá
blæðingar og hafa nú varað í um mánuð. Ég er vön að fá mikla verki en nú
bregður svo við að ég finn ekki fyrir neinu. Ekki er ég ófrísk, svo mikið
veit ég.

Fyrir um tveimur vikum síðan fór ég að finna fyrir miklum verkjum í hnjánum
sem minnka og aukast eftir álagi, en hverfa þó aldrei alveg.

Svar:

Sæl.

Ég held að hnjáverkirnir séu næg ástæða til þess að kíkja til læknis.
Það er möguleiki á að það sé tenging á milli blæðingaróreglunnar og hnjáverkjanna, en það er sjaldgjæft og ólíklegt að verkurinn komi í bæði hnén. Þá er ég að hugsa um sýkingar í leggöngum sem geta valdið sýkingum í hnjám (Lekandi, Klamydía).

Það þarf ekkert að vera óeðlilegt við svona milliblæðingar eins og þú ert með. Ef þetta varir áfram skaltu samt endilega ræða þetta við lækninn þinn.

Kveðja,
F.h. Félags um forvarnir læknanema, forvarnir.com
Jón þorkell Einarsson, læknanemi