Parkinsons, hjartabilun og dópamínlyf?

Spurning:
Ef maður er parkinsonssjúklingur og með hjartabilun, má maður þá ekki taka dópamín við parkinsonssjúkdómnum? Vegna þess að dópamín er innihaldsefni í inótróp sem veldur versnun á hjartabilun? Með fyrirfram þökk,

Svar:

Levódópa er meðal virkra efna í lyfjunum Madopar, Sinemet og Staelvo. Levódópa breytist í virka efnið dópamín í líkamanum eftir töku lyfsins. Yfirleitt er eitthvað þessara lyfja fyrsta val við Parkinsonsjúkdómi.

Gæta skal varúðar þegar levódópa er gefið sjúklingum með alvarlega hjarta- og æðasjúkdóma. Ennfremur skal gæta varúðar þegar það er gefið sjúklingum sem hafa sögu um hjartadrep og hjartsláttaróreglu af völdum þess, frá gáttum eða sleglum (atrial, nodal eða ventricular arhythmia). Hjá þessum sjúklingum skal fylgjast sérstaklega náið með starfsemi hjartans í upphafi meðferðar og meðan aðlögun skammta á sér stað. Ekki er því víst að sjúklingur með hjartabilun megi alls ekki taka lyf sem innihalda levódópa. En segja verður lækninum frá þessu og hann metur hvort óhætt er að nota þessi lyf. Einnig þarf að fylgjast mjög vel með þessum sjúklingum meðan á lyfjameðferðinni stendur.

Með inotrop áhrifum  lyfja er átt við áhrif þeirra á samdráttarkraft vöðva, einkum hjartavöðvans. Levódópa (og dópamín) hefur jákvæð inotrop áhrif, þ.e. það eykur samdráttarkraft hjartans. 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur