pillan og pilluhlé

Fyrirspurn:

Ég er á Yasmin pillunni og tek hana alltaf á sama tíma sólarhrings. Ef ég tek hana um klst of seint eða snemma þá ruglast "kerfið" hjá mér og koma milliblæðingar. Milliblæðingarnar hætta svo ekki nema ég taki pilluhlé og fari á túr og byrji svo aftur.

Ég hef líka verið að reyna að sleppa við það að taka hléið en þegar ég er komin aðeins inn í næsta spjald, byrja milliblæðingar og þá þarf ég að taka hlé.

Getur verið að pillan sé of veik, er það eðlilegt að það megi muna svona litlu á tíma?

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Samkvæmt leiðbeiningunum með Yasmín þá  er fyrsta taflan  tekin á fyrsta degi tíðablæðinga og síðan er ein tafla tekin daglega, helst alltaf á sama tíma dags, samfleytt í 21 dag. Eftir 21 dag er gert hlé í 7 daga og verða þá blæðingar. Að 7 dögum liðnum er byrjað á næsta spjaldi, hvort sem tíðablæðingum er lokið eða ekki.

Svo þú átt að taka pilluhlé og fara á túr einu sinni í mánuði.

Milliblæðingar eru algengar fyrstu mánuðina en eiga að hætta smám saman ef pillan er tekin skv leiðbeiningunum.

Ef það gerist ekki skaltu hafa samband við lækninn sem skrifaði upp á pilluna fyrir þig.

Gangi þér vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir