Pissuslys tveggja ára dóttur, hvað er til ráða

Spurning
Þannig er mál með vexti að dóttur mín sem er tveggja og hálfs árs er búin að
vera bleiulaus síðustu 5 mánuði. Þetta hefur gengið alveg
ágætlega. Auðvitað komu slys svona til að byrja með en hún var alveg hætt
að pissa á sig.
Ef hún gleymdi sér þá kom í mesta lagi pínu dropar í
nærbuxurnar en þá náði hún að stoppa og segja til. En síðan fluttum við á
milli landshluta fyrir mánuði og þá byrjaði hún aftur að pissa á sig. Það
kemur mér svo sem ekkert sérstaklega á óvart en mér finnst að þetta ætti að
fara lagast. Hún neitar statt og stöðugt að fara á klósettið og ef hún
pissar á sig þá leikur hún sér bara í pollinum og lætur eins og ekkert
sé. Hún er mjög klár af tveggja ára barni en líka mjög þrjósk og
ákveðin.

Hvaða leiðir væri best að fara til að koma þessu á réttan kjöl
aftur. Á ég að setja hana á bleiu aftur eða bara þvo upp polla þrisvar á
dag með bros á vör þangað til þetta lagast. Hún er ekki komin á nýja
leikskóla, en það stendur til eftir nokkrar vikur. Hún og pabbi hennar
hafa verið í sumarfríi síðan við fluttum þannig að henni hefur verið mjög
vel sinnt og hún fær alla þá athygli og umönnun sem hún þarfnast.

Svar
Ágæta móðir.

Ef að líkum lætur hefur vandamálið lagast nú þegar. Af lýsingunni að dæma
virðist þessi afturför stafa af röskun á högum hennar fremur en nokkru öðru
en hins vegar er ekki hægt að útiloka að eitthvað líkamlegt geti verið orsökin.
Ef dóttirin er enn að pissa á sig væri því ekki úr vegi að fara með hana til
læknis.
Ég mæli hins vegar með því að þið látið hana bara fara að ganga með
bleiu aftur. Kannski er henni verr við að ganga með blauta bleiu en að leika
sér í pollinum og þá verður hún fúsari til að taka upp fyrri siði. Þú segir
að hún fái alla þá athygli og umönnun sem hún þarfnast en vandinn gæti líka
falist í því að hún fái of mikla athygli og umönnun einmitt þegar hún gerir þessi
skammarstrik.

Ein leiðin í stöðunni er að gera sem minnst úr þessum slysum
og sjá til þess að hún fái eins litla athygli út á þau og hugsast getur. Gamalt
húsráð er að þvo barninu með köldu vatni eftir svona lagað þannig að
reynslan verði miður ánægjuleg.

Með kveðju
Reynir Harðarson
sálfræðingur
S: 562-8565