Polaramin á meðgöngu?

Spurning:

Sæll Jón Pétur.

Ég er með fyrirspurn í tengslum við meðgöngu og lyfjagjöf. Þannig er mál með vexti að eiginkona mín er ófrísk en tekur polaramin við húðskrifi sem hefur þjakað hana síðustu mánuði. Ég hef fengið tvo lækna til að meta skaðsemina og hefur annar þeirra talið þetta óskaðlegt fyrir fóstrið en hinn telur þetta hættulegt fyrir fóstrið og geti valdið vansköpun. Því brennur það vitanlega á mér að vita vissu mína.
Með von um skjót svör.

Virðingarfyllst.

Svar:

Til hamingju með barnið.

Það er skynsamlegt að taka ekki lyf sem maður getur verið án á meðan á þungun varir. Það er alltaf ákveðin áhætta samfara því að taka lyf. Ég veit reyndar ekki til þess að Polaramin skaði fóstur. Það ætti því að vera í lagi að taka lyfið í eðlilegum skömmtum á meðgöngunni.

Kveðja.
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur