Próteindrykk í stað pylsu og kók?

Spurning:

Góðan daginn til hamingju, þetta er afbragðssíða.

Mér datt í hug að breyta matarræði mínu örlítið og í stað þess að fá mér kók og pylsu í hádegismat að fá mér próteindrykk í staðinn sem sagður er koma í stað einnar máltíðar. En málið er að ég endist ekki til 3:30 á einum próteindrykk og þá kemur spurningin: má ég drekka tvo, t.d einn kl: 12:30 og svo annan kl. 14:00.

Svo er annað sem ég hef verið að spá í með freknur. Ég hélt að ég hefði séð það einhversstaðar að freknur kæmu út af ákveðnum vítamínskorti en svo hef ég ekki fundið það aftur, er þetta kanski bara vitleysa í mér?

Takk fyrir.

Svar:

Sæll.

Mér líst vel á að þú ætlir að gera breytingar á mataræðinu ef pylsa og kók er hinn venjulegi hádegismatur. En af hverju vilt þú skipta yfir í próteindrykk? Mér fyndist miklu skynsamlegra að þú fengir þér t.d. góða grænmetissamloku, skyr og ávöxt. Ég get lofað þér því að þú verður lengur saddur. Ef það klikkar þá gætir þú bætt við samloku eða öðrum ávexti. Próteindrykkirnir hugsa ég að verði leiðigjarnir til lengdar. Þeir eru snauðir af trefjum (hefur áhrif á mettunartilfinningu), auk þess sem þú þarft ekki á öllum þessum próteinum að halda ef þú borðar að öðru leyti venjulegan mat. Þeir eru síðan rándýrir!

Það er ekki þekkt að freknur komi til vegna skorts á vítamínum.

Bestu kveðjur,
Ingibjörg Gunnarsdóttir, matvæla- og næringarfræðingur