Psoriasis spurningar?

Spurning:
Ég hef þjáðst af psoriasis sjúkdómnum svo lengi sem ég man eftir mér (ég er 26 ára) og fór nýlega á vef ykkar til að fræðast um hann. Meðal þeirra lyfja sem ég hef notað til þess að halda sjúkdómnum í skefjum eru sterar ýmsir og segir í umsögn ykkar um þá, að þeir geti haft áhrif á hormónastarfsemi líkamans. Hverslags áhrif eru það? Ég tók kynþroska út seint og illa, getur verið ad notkun mín á þessum lyfjum hafi eitthvað með það að gera?

Svar:
Aukaverkanir af svokölluðum "sykurhrífandi barksterum" (glucocorticoides, barksterar) eru vel þekktar og nokkuð algengar þegar lyfin eru tekin inn. Þær eru þó fátíðar við útvortis notkun. Helstu aukaverkanir við útvortis notkun eru staðbundnar á húð, s.s. húðþynning húðþenslurákir og sérstök útbrot. Hættan á þeim eykst eftir því sem sterkari barksteri er notaður, húðsvæðið er stærra, og tíminn sem lyfið er notað er lengri. Börnum er einnig mun hættara við aukaverkunum af barksterum á húð en fullorðnum. Við mikla notkun sterkra barkstera, ekki síst ef ógegndræpar umbúðir eru notaðar, getur eitthvað af lyfinu frásogast yfir í blóðið og valdið þar aukaverkunum eins og ef lyfið hefði veri tekið inn. Þetta er þó mjög fátítt. Börnum er mun hættara við þessu en fullorðnum. Þarna geta verið um að ræða bjúgsöfnun, háþrýstingur, "Cushing's heilkenni" (lýsir sér helst með því að andlitið blæs út, moon face), minnkuð framleiðsla hormónanna ATCH og kortisóls, sem eru líkamanum nauðsynleg til að bregðast við álagi, kalíumskortur, vöðvarýrnun, beinþynning og vaxtarseinkun hjá börnum.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson lyfjafræðingur