Puttasog?

Spurning:
Kæra Dagný!
Ég á 3ja mánaða gamlan son sem byrjaði á þeim ,,ósið“ að sjúga hnefann eða puttana fyrir nokkrum dögum. Hann er orðinn dintóttur við snudduna, skiljanlega enda er höndin alltaf handhæg og þar sem hann nær sjálfur í hana. Vandamálið er að hann er á eilífu brölti á nóttunni við að leita að hnefanum/putta og lætur sér ekki duga snuddan nema augnablik þar til hann man eftir hnefanum. Er þetta einhvað sem ég ætti að hafa áhyggjur af og reyna að venja hann af? Og þá hvernig? Mér líst nú ekkert á bröltið að reyna að venja hann af þessu seinna meir enda er það veit ég nánast vonlaust. Eða á ég að láta þetta eiga sig og leifa honum að sjúga og naga þegar honum sýnist? Er þetta einhvað tímabil sem ég má búast við að líði hjá?
Kær kveðja, mamma.

Svar:

Börn hafa mismikla sog- og nagþörf og sonur þinn er greinilega ánægðari með það sem hann getur útvegað sjálfur en snudduna. Stundum getur mikið handasog bent til að barnið sé svangt en oftast er þetta bara ánægja með eigin fingur. Vertu ekkert að hafa áhyggjur af þessu ef þú veist að hann er saddur og sæll og er sjálfur ekki að rella. Það er allt eins líklegt að þetta sé bara tímabundið og hann hætti þessu þegar hann fer að leika sér meira.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir