Ráð til að auka frjósemi

Spurning:

Halló! Ég er 23 ára gömul og á unnusta og hef reynt í 4 mánuði að verða ólétt. Ég hætti á pillunni í sumar en ég hef verið á henni í 6 ár. Geturðu gefið okkur einhver ráð sem auka líkur á þungun og hvert við eigum að snúa okkur næst ef ekkert gengur.

Kveðja,
Ein vongóð

Svar:

Sæl.

Besta ráðið til að verða ólétt er að leggja ekki of mikla áherslu á það. Streita hefur nefnilega slæm áhrif á frjósemi. Reykingar, kaffidrykkja og áfengi hafa líka slæm áhrif. Einnig getur mikil líkamsrækt og strangir megrunarkúrar dregið úr frjósemi. Svo er heldur ekki gott að vera að hafa samfarir í tíma og ótíma því þeim mun oftar sem maðurinn hefur sáðlát þeim mun færri sæðisfrumur eru í sæðinu og því minni líkur á að þær eigi möguleika á að frjóvga eggið. Öruggast er að hafa samfarir um miðjan tíðahring því egglosið verður 14 dögum áður en blæðingar hefjast og í 28 daga tíðahring er það 14 dögum eftir að síðustu blæðingar hófust. Þú ert vonandi byrjuð að taka fólínsýru. Fólínsýra minnkar líkurnar á klofnum hrygg hjá fóstrinu og hefur góð áhrif á blóðmyndun. B-vítamínin eru reyndar öll góð á frjósemisskeiðinu. Kalk, magnesíum og E-vítamín er víst líka til bóta. Reyndu að lifa reglulegu lífi, fara að sofa á skikkanlegum tíma á kvöldin, borða reglulega, borða hollan mat og stunda líkamsrækt af skynsemi. Reyndu líka að fá sem mest af dagsbirtu því hún bætir frjósemi. Ég læt hér fljóta með skemmtilegt ráð sem ég rakst á í grasabók (sel það ekki dýrara en ég keypti): „Láttu ljósið loga í svefnherberginu í þrjár nætur um miðjan tíðahring; allar aðrar nætur á herbergið að vera alveg myrkvað. Egglosið kemur þegar ljósið logar. Hafðu samfarir þær þrjár nætur sem ljósið logar ef þú vilt frjóvgast. Þessi aðferð, kölluð lunaception, er góð í bland við jurtir sem örva frjósemi.“ Svo mörg voru þau orð og þessar jurtir sem minnst er á eru hindberjalauf, rauðblaðasmári og nettlulauf. Þessar jurtir er hægt að kaupa hjá Heilsuhúsinu og gera úr þeim te. Það er svo sem ekki öruggt að neitt af þessu virki en ekkert af þessu er skaðlegt. Ef þér tekst ekki að verða þunguð á næstu mánuðum ættirðu að tala við þinn kvensjúkdómalækni. Það er þó ekki fyrr en par hefur reynt að geta barn í tvö ár að farið er að tala um ófrjósemi og þá eru gerðar nánari rannsóknir til að kveða úr um orsök ófrjóseminnar og ráða á henni bót. En sem fyrr segir – hættu að hugsa svona mikið um þetta – þið eruð ung og hafið góðan tíma og nú er um að gera að njóta lífsins og byggja sig upp fyrir meðgöngu.

Gangi ykkur vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir