Ráð til að hætta brjóstagjöf

Spurning:

Kæra Dagný.

Ég á átta mánaða stelpu sem er á brjósti, en bara á kvöldin og á nóttunni.
Hún sofnar við það og þykir voða gott að sjúga mömmu alla nóttina, ég er að sjálfsögðu orðin þreytt og er að fara að undirbúa mig og hana að hætta.
Málið er að mig langar ekki að hætta strax, en hún er að vakna svo oft t.d. á kvöldin sofnar hún um hálf níu og til kl. 11 er hún kannski að vakna 3-5 sinnum. Hún fékk magakveisu og lenti í voða svefnóreglu sem hún hefur kannski aldrei farið úr. Hún er líka voða háð mér þannig að ég hef varla farið út að kvöldi til frá því að hún fæddist. Ég á fleiri börn og hef einu sinni þurft að venja af mér en sú dama var níu mánaða og tók það bara ca. tvö kvöld.

Átt þú einhverjar góðar ráðleggingar handa mér?

Eitt að lokum, einu sinni sá ég ráð um það að setja sítrónusafa á geirvörtuna þá vill barnið ekki brjóstið?

Kveðja.

Svar:

Sæl.

Mikið er nú gott hvað brjóstagjöfin gengur vel hjá ykkur. Það er vitaskuld alveg óþarfi að hætta henni alveg úr því þið eruð báðar svona ánægðar. Það er litlum börnum eðlilegt að vera háð mömmu sinni og fer bara eftir karakter hversu auðvelt er að venja þau frá „pilsfaldinum". Ég myndi nú ekki alveg samþykkja þetta með sítrónusafann nema þú ætlir alveg að hætta með hana á brjósti – þá gæti þetta virkað en er að mínu mati dálítið skarpt. Hins vegar hefur oft gefist vel að skipta um rúmhelming við pabbann í nokkrar nætur. Barnið veit að hann á ekkert brjóst og ekki þýðir að leita til hans með að sjúga. Eftir nokkrar „mömmulausar" nætur hættir barnið oftast að vakna því það fær hvort sem er ekkert. Ef hún virðist þyrst má bjóða henni vatn úr glasi en best fer á því að pabbi sjái alfarið um næturstússið þar til hún hefur vanist því að fá ekki brjóst á nóttinni. Ef því verður ekki við komið að pabbi sjái um næturnar getur hjálpað að mamman sé í níðþröngum bol, eða samfellu, sem ekki er hægt að komast inn fyrir til að komast á brjóst og láta eins og maður viti ekkert um hvað barnið er að biðja þegar það leitar að brjóstinu. Það er líka mikilvægt þegar venja á barnið af að sofna við brjóstið að taka það af brjóstinu áður en það sofnar alveg. Gott getur verið að eitthvað annað komi í staðinn eins og bangsi eða teppi eða eitthvað sem barnið tengir við hlýju og svefn sem fylgir því þá í rúmið.

Vona að þetta gagnist þér eitthvað og að þetta gangi vel.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir