Ráð varðandi 3ja ára son og klósettið?

Spurning:
Mig vantar sárlega ráðleggingar varðandi son minn sem er alveg að vera 3ja ára. Þannig er mál með vexti að ég fæ hann ekki til að pissa/kúka í klósettið, nema vera með bleyju. Fljótlega eftir að hann var 2ja ára fórum við í það að venja hann af bleyju. Þetta gekk alveg rosalega vel, hann sagði til og missti aldrei í buxurnar. Þetta tímabil stóð í um eina viku. En allt í einu ákvað hann að hætta að vilja setjast á klósettið, sama hvað við reyndum, og einnig koppinn. Frekar hélt hann í sér allan daginn, hljóp um eins og óður um allt húsið og grét og heimtaði að fá bleyju. Við reyndum þetta í nokkra daga en gáfumst síðan upp. Þannig að núna fær hann alltaf bleyju þegar hann þarf að pissa. Hann stjórnar þvagláti alveg. Vil taka fram að við, eiginmaður og annar eldri sonur, fluttum erlendis fyrir um mánuði síðan og var okkur ráðlagt af hjúkrunarfræðingi, sem við vorum hjá í ungbarnaeftirlitinu, að láta þetta bara eiga sig í einhvern tíma og leyfa honum aðlagast breyttu umhverfi, hitt kæmi bara smátt og smátt.
En einhvern veginn erum við hjónin alveg að gefast upp á þessu ástandi… fórum t.d. í heimsókn um daginn, gleymdum að taka bleyju með, og viti menn við máttum gjöra svo vel að fara heim og ná í eina. Málið er að þegar hann segist þurfa að pissa og við nefnum það við hann að pissa í klósettið tjúllast hann og öskar út í eitt… ég veit að ég er allaf tuðandi í honum á hverjum degi um að reyna en ekkert gengur… kannsi gerir það illt verra þetta tuð í mér. Finnst bara sorglegt að þetta skuli vera svona þar sem hann stjórnar þvagláti.
Vil líka taka það fram að við erum búin að reyna að fara í það að verðlauna hann en honum er alveg sama. Núna um daginn ákvað ég að reyna aftur og gerði kannski þau mistök að ég setti á hann bleyju og leiddi tippið framhjá. Þannig að hann pissaði í klósettið…. ég veit ekki hvert hann ætlaði, hann gjörsamlega varð vitlaus (er með rosalegt skap og er einnig rosalega ákveðinn)… og síðan þá hefur hann ekki fengist til að nota þessa tilteknu bleyjutegund né að setjast á klóssettið þegar hann pissar. ÉG ER ALVEG ORÐIN RÁÐÞROTA. Hann er að byrja á leikskóla núna um mánaðamótin (hefur aldrei verið á leikskóla áður), á ég að fá leikskólann í að taka þetta verkefni að sér og á ég að láta hann eiga sig? Stundum er ég orðin svo þreytt á þessu bleyjuástandi að ég æsi mig við hann og ekki bætir það ástandið.
Ég spurði hann um daginn hvort hann væri eitthvað hræddur við eitthvað, hann sagðist vera hræddur við pissið (sem að ég held að sé alveg rétt, ef að fer þvag á leggina á honum verður hann hræddur) og að klósettið taki tippið í burtu. Vil líka koma inn á að hann er alltaf í tippinu á sér ef hann er ekki í nærbuxum, og stundum á hann það til að girða niður um sig til að ath. hvort tippið sé ekki á sínum stað. HVAÐ EIGUM VIÐ AÐ GERA? Get ekki hugsað mér að hann sé enn með bleyju þegar hann er orðinn 3ja ára. Tók einn dag um daginn og neitaði honum um bleyju, hann hélt í sér og gólaði allan daginn þannig að nágrannarnir hafa eflaust ekki farið varhluta af því sem á gekk. Með von um skjót svör,

Svar:
Sæl.
Það getur oft verið erfitt að venja börn á klósettið og reynir það þá á þolinmæði foreldra. Í fyrsta lagi er ekkert óeðlilegt að börn taki bakslag í að hætta með bleyju. Í öðru lagi eru ekki öll börn tilbúin til að bætta með bleyju fyrir 3 ára aldur. En það eru margar leiðir til að þjálfa barnið í þessari færni. Eina aðferðin sem dugar er atferlisþjálfun. Þá þarf að tengja klósettferðir eða koppinn við jákvæða umbun sem getur verið í formi hróss eða öðru jákvæðu. Þá getur verið gott að láta koppinn vera inní herbergi hjá barninu og leyfa því að venjast honum. Síðan þarf að hrósa í hvert skipti sem barnið sýnir koppinum áhuga. Ekki er ráðlagt að þröngva barninu til að setjast á koppinn og ekki veita athygli á að vilja hafa hægðir í bleyju. Hrós er besta umbunin og þarf þá að hrósa barninu fyrir hvert skref sem það tekur, t.d. hrósa ef barnið sest á koppinn í öllum fötum. Síðan þarf að prófa að færa koppinn inná bað og hrósa barninu fyrir að setjast á koppinn þar. Hægt er að vekja áhuga barnsins á þessu á jákvæðan hátt, t.d. með því að sýna hvernig maður tæmir úr bleyjunni í klósettið og leyfa barninu að sturta niður. Síðan þarf að hrósa. Með því að nota svona atferlisaðferðir tengið þið klósettferðir við jákvæðan atburð (hrós) en líklegast er tengingin meira neikvæð núna. Því er mjög mikilvægt að vera ekki í stríði við barnið og að halda út þessar aðferðir. Þetta getur oft tekið nokkar vikur eða jafnvel mánuði og því reynir á úthald og að gefast ekki upp á að nota jákvæða umbun. Flestir gefast upp á þessari aðferð af því hegðunin getur versnað fyrst. En ef þið haldið þetta út og notið alltaf sömu aðferð þá aukast líkurnar á árangri. Ef alltaf er verið að breyta um aðferðir nær barnið ekki að tengja hegðun við afleiðingar.
Líklegast er þó að barnið sé ekki tilbúið að venjast klósettinu strax. Þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af þessu eins og er en ef þessar aðferðir virka ekki og hann er enn með bleyju um 4 ára aldurinn þá þurfið þið að fá aðstoð sérfræðings í atferlisþjálfun til að setja upp prógram með ykkur.
Gangi ykkur vel.
Brynjar Emilsson sálfræðingur