Ráðþrota með fimm ára?

Spurning:

Sæl og blessuð.

Ég er móðir 5 ára gamallar dömu. Ég á í vanda með dömuna mína og er að verða ráðþrota.
Hún dregur úr mér alla orku og heldur mér vel við efnið alla daga. Hún er mjög ljúf og góð og hefur aldrei verið til neinna
alvarlegra vandræða en er ekki hamingjusöm að ég tel. Það eru engin alvarleg vandræði heima fyrir sem ég tel að ættu að
valda henni þessari óhamingju. Ég er gift og við vinnum bæði fullan vinnudag. Svo ég lýsi nú hegðun hennar að einhverju
leyti þá bregst hún við flest öllum beiðnum mínum með því að leggjast í gólfið og grenja eða væla. Ef ég neita henni um
eitthvað þá er það grátur. Það er eins og hún heyri engin rök. Mér finnst hreinlega að hún sé lungann úr deginum rúllandi
sér á gólfinu og vælandi yfir ,,engu". Hún er mikil dramadrottning og gerir stórmál úr hlutunum og gerir það óspart. Hún er mikill föndrari og hefur gaman af því að spila og öðru dundi en hér þarf ég oftast að vera með í því sem hún er að bralla, hún pirrast auðveldlega ef eitthvað mistekst. Hún hefur aldrei notið þess að horfa á sjónvarp, spila tölvuleiki eða leika eitthvað sjálf  t.d. dúkkuleik. Hún er því bókstaflega yfir mér allar þær stundir sem við erum saman.
Hún er með eindæmum lengi að öllu sem hún gerir hvort sem það er að borða eða annað. Hún klæðir sig aldrei sjálf og verður óð ef ég er að biðja hana um það… það verður annar gráturinn yfir því þannig að ég þarf alltaf að klæða hana og geri það til að forðast grátur. Upp á síðkastið hefur hún æ meira kvartað undan verkjum hér og þar og þá aðallega magapínu ? Henni gengur vel í leikskólanum og félagslega á fínar vinkonur en hún vill helst fá þær heim og er ekki mikið að fara til þeirra. Hún sefur lítið og hefur alltaf gert það. Stundum hef ég verið að reyna að klína þessum eilífa pirring hennar á þreytu en það er ég hrædd um að sé ekki skýringin. Drengurinn minn sem er að verða 4 ára er ljúfur sem lamb og hafa þær uppeldisaðferðir sem ég hef notað dugað mjög vel á hann og er hann ekkert mál að eiga við. Því skil ég ekki hvað er að angra hana. Það er svo erfitt að gleðja hana og hún þarf svo lítið til að allt fari úr sambandi. Ég viðurkenni alveg að oft á tíðum missi ég mig alveg við hana og hef ekki meiri þolinmæði því það er alveg sama hvaða aðferðum ég beiti, það skiptir engu. Þetta fyllir mann miklu vonleysi. Það er ekki eins og við eigum aldrei góðar stundir en það er samt alltof erfitt að ná þeim og þær eru allt of fáar. Gæti hún hugsanlega verið þunglynt barn?

Með von um einhver ráð.

XXX

Svar:

Heil og sæl.

Það er ekki gott að sjúkdómsgreina svona lagað með tölvupósti en hver sem greiningin er má takast á við þetta með atferlismótun.  Þá þarf að skoða nákvæmlega þessa hegðun, við hvaða aðstæður verður hún og hvað gerist í kjölfarið, þ.e.a.s. hver eru viðbrögð annarra við henni.  Þá má reikna út hvað barnið fær út úr þessari hegðun og reyna að útiloka það til að draga úr hegðuninni. Svo þarf að skoða hvað barninu finnst eftirsóknarvert og tengja það hegðun þess, þ.e.a.s. að veita barninu umbun fyrir rétta hegðun. Svona lagað tekur tíma og krefst þess að vel sé að verki staðið og til þess þarf sérfræðing (sálfræðing-menntaðan í atferlisfræði).  Í stað þess að fara lengra út í þá sálma mæli ég með því að þú leitir til slíks sérfræðings til að ráða bót á þessu.

Með kveðju,

Reynir Harðarson
sálfræðingur
S: 562-8565