Relpax og Seroxat samtímis?

Spurning:
Ég er með mígreni og var nýverið sett á þunglyndislyf. Mín spurning er þessi: er allt í lagi að taka Relpax og Seroxat samtímis? Og hver eru ofnæmisviðbrögð við Seroxat og hversu langur tími getur liðið frá því að maður byrjar að taka lyfið þangað til að ofnæmið kemur í ljós?

Svar:
Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að ekki sé í lagi að taka Relpax (Eletriptan) og Seroxat (Paroxetín) saman. Þetta á einnig við um aðra sérhæfða serótónín endurupptökuhemla (SSRI).Ofnæmi af paroxetíni er mjög sjaldgæft (minna en 1 af hverjum 1000). Það lýsir sér einkum með kláða eða ofsakláða (urticaria) eða húðbeðsbjúg (angioedema), sem kemur fram sem bólgur í t.d. í andliti, tungu, vörum eða koki. Ofnæmi getur komið fram strax þegar byrjað er að nota lyfið eða seinna.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur