Reykingar og hjartsláttur

Er eðlilegt að hjartsláttur eykst við reykingar reyki sjaldan en þegar ég reyki finn ég fyrir frekar miklum auknum hjartslætti?

Sæl/ll og takk fyrir fyrirspurnina.

Já það er eðlilegt, Nikótínið í sígarettum hefur margvísleg áhrif á líkama þinn þegar þú reykir.

Nikótín hefur beina örvandi verkun á viðtaka taugafrumna sem leiðir til losunar ýmissa boðefna og hormóna, til dæmis endorfíns, adrenalíns og vaxtarhormóna. Einnig örvar það hjarta og mörg önnur líffæri. Hjartsláttur verður örari, æðar dragast saman, ekki síst í húð og innyflum og blóðþrýstingur hækkar. Líkamshiti lækkar vegna æðaþrenginga og aukin þarmastarfsemi getur leitt til niðurgangs. Þvagmyndun dregst saman í tvo til þrjá klukkutíma sem veldur vökvasöfnun hjá reykingamanninum. Munnvatnsrennsli örvast í fyrstu en dregst síðan saman.

Með kveðju,

Bylgja Dís Birkisdóttir

Hjúkrunarfræðingur