Ristill og meðganga

Fyrirspurn: 

22 ára – kona

Kærastinn minn komst að því í gær að hann er með eitthvað sem kallast Ristill, (hann er með útbrot á bakinu, en fékk lyf við þessu í gær). Málið er að ég er ólétt og við vorum að velta því fyrir okkur hvort þessi vírus gæti haft einhver áhrif á fóstrið (ég er komin 7 vikur).

Með fyrirfram þökk,

Svar:

Sæl,

Ristill er sýking sem orsakast af hlaupabóluveirunni. Þessi birtingarmynd kemur vanalega fram á fullorðinsárum þó það sé vel þekkt að börn geti fengið ristil einnig. Ristill er sem sagt orsakaður af hlaupabóluveirunni sem vaknar upp á ný. Bólurnar og vessinn sem myndast er afar smitandi og getur orsakað hlaupabólu í þeim sem ekki hafa fengið hlaupabólu áður. þannig að þú ert í áhættu að fá hlaupabólu ef þú hefur ekki fengið hana áður. Það er hægt að ganga úr skugga um hvort þú hefur mótefni eða ekki með einföldu blóðprófi sem tekur 2 daga að fá niðurstöðu úr. Hlaupabóluveiran getur verið skaðleg fyrir fóstrið svo það er full ástæða fyrir þig að láta athuga þetta nema þú sért handviss um að hafa fengið hlaupabólu. Ef þú hefur engin mótefni gegn hlaupabólu þá þarftu að fá ráðleggingar hjá fæðingarlækni þínum um það hvernig þú átt að bregðast við eða hafa samband við göngudeild smitsjúkdóma á landspítala – háskólasjúkrahúsi. 
  
Kveðja,
Már Kristjánsson
Sérfræðingur í smitsjúkdómum