Ristilsýking og augnaðgerð?

Spurning:

Sæll.

Fyrir um 2 árum fékk amma mín Ristil, u.þ.b. ári síðar fór hún í augnaðgerð en eftir aðgerðina kom svo í ljós að ristilssýkingin hafði náð í augað á henni og því mistókst þessi aðgerð og síðan þetta var þá hefur hún haft mjög litla sjón á auganu. Mín spurning er þessi, er hægt að gera eitthvað fyrir hana svo að hún losni við þessa sýkingu og komist aftur í þessa augnaðgerð?

Kærar þakkir.

Svar:

Sæl.

Ekki kemur fram hvaða augnaðgerð var um að ræða, þannig að erfitt er að svara þessu til hlítar. Ristill er orsakaður af veiru sem einnig veldur hlaupabólu, herpes varicella-zoster. Hún getur farið í auga ef hún kemur upp í andliti. Oftast veldur hún litlum skaða en í þessu tilfelli hefur hún valdið augnsjúkdómi sem leiddi til sjóndepru. Það gæti verið vegna örs í hornhimnu, gláku, lithimnubólgu, sjónhimnu- og/eða sjóntaugarskemmda. Aðeins nákvæm augnskoðun hjá augnlækni getur skorið úr um hvort eitthvað sé hægt að gera til að bæta sjón ömmu þinnar, t.d. með aðgerð.

Bestu kveðjur og gangi þér vel.
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf.