Ristiltotur, hvað er til ráða?

Spurning:
Ég er með ristiltotur og er nú ristillinn það slæmur að ekki er hægt að spegla hann til enda vegna hlykkja, en það var reynt nú í vetur; vægast sagt hvimleið speglun. Ummæli læknisins voru að ristillinn væri einsog í 70-80 gamalli manneskju, en ég er 46 ára. Ég greindist með einn sepa sem var brenndur burt fyrir um 10 árum og hef  farið í nokkrar speglanir síðan, en sú síðasta var sú versta. Ég hef áhyggjur af einkennum frá ristli, svo sem verk sem virðist leiða út í endaþarm en hann hefur ágerst með árunum, velgju og verkjum hægra megin í kviðarholi og held ég stundum að botnlanginn sé að gefa sig. Ég hef aldrei þjáðst af hægðatregðu en hef einkenni í þveröfuga átt.

Ég tek HUSK að staðaldri og hef enn ekki fengið mér vitanlega sýkingu í þessa poka.Það eru mikil hljóð frá kviðarholinu og einsog þau séu frekar aftan til og þetta eykst. Læknirinn sem speglaði mig síðast telur að best sé að nema burt slæma hluta ristilsins strax eftir 1. sýkingu en ég vil nú helst hafa hann og koma honum í betra lag, en er þó hrædd við áðurnefnd einkenni svo og hvað gæti leynst í þeim hluta sem ekki sést og er slæmur. Hvað er til ráða? Og ef ég þarf að leita frekari lækninga, er þá mögulegt að panta tíma hjá Ásgeiri Theodórssyni?

PS. Ég fékk ekki ráðleggingar í sambandi við mataræði, en veit þó að ég má minnka kaffidrykkju, og já, ég hef gengið í gegnum þó nokkur streitutímabil, en lifi nokkuð heilbrigðu lífi að ég tel, í sveit.

Svar:

Vandamálið sem þú ert að glíma við varðandi þinn ristil er ekki sjaldgæft. Það er margt sem þarf að huga að og reynir oft á þolinmæði bæði hjá lækninum og sjúklingnum ef á að bæta ástandið. Mikilvægt er að skoða allan ristilinn ef þú hefur haft ristilsepa (ákveðna tegund) áður. Það er ennþá mikilvægara ef þú hefur fjölskyldusögu um ristilsepa eða krabbamein í ristli.  Ristilspeglun er besta rannsóknin og líklegast að það myndi takast að spegla þig hjá sérfræðingum, sem gera mikið af þessum rannsóknum. Það er ýmiss konar ný tækni, sem má beita við slíkar erfiðar speglanir og nota t.d. mjórra tæki og spegla í skyggningu. Röntgenmynd af ristlinum kemur líka til greina. Síðan er ýmislegt sem má ráðleggja til að bæta líðan þina er varðar matarræði, hreyfingu og forðast óæskilega hluti eins og reykingar og mikla kaffidrykkju. Trefjarík fæða hentar vel, en jafnframt má nota lyf tímabundið, sem minnka hreyfitruflanir (samdrátt) í ristlinum. Hér þarf sjúklingurinn og læknirinn að vinna vel saman og nauðsynlegt er að farið sé eftir leiðbeiningum. Það tekur oft langan tíma að bæta ástandið. Pokarnir á ristlinum lagast ekki, en með því að bæta ástand ristilsins er von til að forða frekari myndun poka og hugsanlegi sýkingu. Nauðsynlegt er að taka slíkt ristilvandamál, eins og þú lýsir, föstum tökum til að láta þér líða betur. Vona að þetta komi að gagni.

Kveðja, Ásgeir Theodórs