Roaccutan – mig vantar upplýsingar

Spurning:

Sæll.

Ég fór til húðsérfræðings síðasta vetur út af bólum á baki, og ráðlagði hann mér Roaccutan-meðferð. Ég leysti út lyfið, las aukaverkanaskrána, og guggnaði á öllu saman! Nú er svo komið að ég þoli ekki við lengur, bólurnar eru að gera út af við mig, og ég er að hugsa um að slá til.

Spurningar mínar til þín eru eftirfarandi:

Er mér ekki óhætt að nota töflurnar sem ég leysti út í fyrra? Þær eru ekki útrunnar og ég hef geymt þær inni í skáp allan tímann.

Þær aukaverkanir sem ég er hræddust við eru hárlos og þunglyndi. Eru þetta algengar aukaverkanir?

Af hverju má ekki neyta léttvíns meðan á lyfjatöku stendur?

Má ég drekka Herbalife-próteindrykk á meðan, en hann inniheldur 370 míkrógrömm af A-vítamíni, sem sagður er 46% af ráðlögðum dagsskammti?

Með kveðju, Bóla

Svar:

Sæl.

Roaccutan er skráð með ábendinguna: „Acne vulgaris á háu stigi, sem ekki hefur svarað annarri lyfjameðferð.“ Eingöngu sjúklingar með þennan sjúkdóm mega nota lyfið, og eingöngu þegar meðhöndlunin er í umsjá læknis með sérþekkingu á þessum sjúkdómi og meðferð við honum.

Allar upplýsingar um lyfið skulu innihalda upplýsingar um að það hafi fósturskaðandi áhrif og að því eigi að nota örugga getnaðarvörn á meðan á meðferð stendur og í minnst 1 mánuð eftir að meðferð lýkur. Þar sem þrymlabólur (acne) eru andrógen háður sjúkdómur á að forðast getnaðarvarnartöflur sem innihalda andrógen prógestagenefni, t.d. töflur sem innihalda 19-nortestósterón (norsteróíð), sérstaklega ef fram koma kvensjúkdóma-innkirtla vandamál. Verði þungun á meðferðartíma er ráðlagt að framkvæma fóstureyðingu.

Forðast skal að hrufla húð á meðan á meðferð stendur og í 5-6 mánuði eftir að henni lýkur vegna hættu á myndun ofvaxtar á óvenjulegum svæðum.

Forðast skal að fjarlægja hár með vaxi á meðan á meðferð stendur og í 5-6 mánuði eftir að henni lýkur vegna hættu á húðbólgu.

Gæta skal sérstakrar varúðar hjá sjúklingum með sykursýki, offitu, áfengisvandamál, sjúkdóma sem hafa áhrif á efnaskipti fitu, skerta lifrar- eða nýrnastarfsemi, hjarta-blóðrásarsjúkdóma og of háa blóðfitu. Hjá þessum sjúklingum getur verið nauðsynlegt að fylgjast oftar með viðeigandi rannsóknargildum.

Sjúklingar mega ekki gefa blóð á meðan á meðferð stendur og ekki í 1 mánuð eftir að meðferð með Roaccutan lýkur.

Greint hefur verið frá þunglyndi, geðsjúkdómaeinkennum og í sjaldgæfum tilvikum sjálfsvígstilraunum og sjálfsvígum hjá sjúklingum á Roaccutan meðferð. Því skal gæta sérstakrar varúðar hjá sjúklingum sem hafa sýnt einkenni þunglyndis og upplýsa skal alla sjúklinga um að leita til læknis síns ef fram koma einkenni þunglyndis vegna meðferðarinnar, ef þörf krefur.

Það er allt í lagi að nota lyfið ef það hefur verið geymt í lokuðum umbúðum við réttar aðstæður og ef það er ekki útrunnið. Hins vegar er nauðsyn að vera undir eftirliti læknis þegar meðferð er í gangi og því ráðlegg ég þér að hringja í lækninn sem ávísaði þér lyfinu og segja honum að nú hyggist þú hefja meðferðina.

Flestar aukaverkanir af völdum Roaccutan eru skammtaháðar. Þunglyndi og hárlos geta komið fyrir en svo getur verið að þú sleppir alveg við það.

Forðast skal samhliða meðferð með A vítamíni þar sem einkenni A vítamíneitrunar geta aukist. Einnig ætti að forðast áfengi en eitt og eitt léttvínsglas ættu samt ekki að skaða.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur