Roði í augum, á ég að leita til læknis?

Spurning:

Sæll.

Fyrir þó nokkru síðan fékk ég í fyrsta skipti roða í annað augað en þegar ég vaknaði þann morgun þá var augað orðið rautt og svoleiðis var það í 2 daga. Síðan 3ja daginn þá var roðinn kominn í hitt augað og það auga var rautt í 1-2 daga og svo hvarf roðinn og ég pældi ekki meira í þessu. Síðan fyrir rúmum mánuði þá gerðist þetta aftur, nema þá var þetta bara í öðru auganu og hvarf eftir 1-2 daga. Það vildi reyndar svo vel til að á þessum degi þá þurfti ég að fara til læknis en hann sagði mér að hafa ekki áhyggjur nema ef þetta færi að koma oftar. Núna á laugardaginn 4. mars þegar ég vaknaði þá var annað augað orðið eldrautt. Hvað getur þetta verið, er þetta eitthvað sem ég ætti að hafa áhyggjur af? Á ég að leita til læknis?

Svar:

Komdu nú sæl.

Roði í augum getur verið merki um allskyns augnsjúkdóma. Oftast er um að ræða fremur saklausa sjúkdóma en þó getur af og til verið um að ræða alvarlegri augnsjúkdóma sem þyrfti að meðhöndla svo að vel færi. Ég ráðlegg öllum sem fá roða í augað að fara til augnlæknis og fá nákvæma augnskoðun með augnsmásjá. Aðeins á þann hátt er hægt að ráða í hvað veldur. Helstu einkenni sem við leggjum upp úr til viðbótar roðanum eru: ljósfælni, minnkuð sjón, augnverkur, sláttur í auganu, augnþurrkur, graftarkennd útferð, tilfinning líkt og eitthvað sé í auganu, tvísýni og útistandandi auga/augu. Þessi einkenni gætu bent til þess að eitthvað alvarlegt sé á ferðinni. Ef þú notar linsur er mjög mikilvægt að þú leitir augnlæknis fljótt þar sem um gæti verið að ræða óþol fyrir linsunum eða jafnvel sýking í hornhimnu.

Gangi þér vel og bestu kveðjur,
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf.