Saflát

Fyrirspurn:

Sæl veriði.
Mig langaði að spurja út í eitt vandamál mitt í kynlífi. Þegar ég næ fullnægingu kemur vökvi, mismikill. Veit ekki hvað það kallast á íslensku, en það er kallað "squirt" á ensku.
Ég hef á stundum ekki verið viss um hvort þetta séu þvaglát eða eitthvað annað. Stundum er nett þvaglykt af þessu. Þetta heftir mig í kynlífi enda vill maður ekkert vera að pissa á fólk, þetta er ekki talið mjög æsandi né þrifalegt.
Hvað er til ráða? Er þetta eðlilegt? Er ég að fá þvaglát við fullnægingu eða getur verið þvaglykt af "kven-sáðláti"?
(hvernig myndi maður þýða female ejaculation annars?)

Með von um góð svör.
🙂

Aldur:
21

Kyn:
Kvenmaður 

Komdu sæl og takk fyrir spurninguna.

Female ejaculation, eða saflát eins og ég hef kosið að kalla það, er algjörlega eðlilegt fyrirbæri og alls ekkert að skammast sín fyrir. Þú ert ekki að pissa og vökvinn sem kemur er ekki piss heldur á hann meira skylt við sæðisvökva, án sáðfrumanna þó. Á þessu er sú ofureðlilega skýring að konur eru líka með blöðruhálskirtil, sem situr einmitt utan um þvagrásarhálsinn, rétt eins og hjá körlum. Hjá körlum er blöðruhálskirtlinum oft líkt við valhnetu eða borðtenniskúlu og hann er nokkuð þéttur og auðvelt að þreifa eftir honum í gegn um endaþarm karlsins. Hjá konum er vefurinn hins vegar líkari mjúkum hólki sem umvefur þvagrásina. Á ensku kallast þessi vefur urethral sponge (þvagrásarsvampur). Inni í þessum svampkennda vef eru svo kirtilgangar og kirtilblöðrur, sá hluti kallast paraurethral glands (hliðarkirtlar þvagrásar). Við kynæsing og aukið blóðflæði til grindarholsins fara þessir kirtlar að mynda vökva og við fullnæginguna dragast saman sléttar vöðvafrumur í kirtilblöðrunum og vökvinn seytlar eða sprautast út um op kirtilganganna sem opnast út rétt til hliðar við þvagrásina. Magnið er mismikið, sumar konur sprauta langt út í loftið á meðan aðrar varla taka eftir þessu. Vökvamagnið verður sérstaklega mikið ef G-svæði konunnar hefur verið örvað mikið á undan, þ.e. svæðið sem liggur á framvegg legganganna. Ef þú skoðar myndir af þverskurði grindarhols konunnar muntu líka sjá að einmitt fyrir framan G-svæðið er þvagrásin… og það þýðir jú að þegar G-svæði er örvað er akkúrat verið að eiga við þvagrásarsvampinn og þar með örvast starfsemi kirtlanna. Það er ekkert undarlegt að tengja vökvann þvaglátum því við konur fáum jú nánast enga fræðslu um saflát eða þennan hluta líffræði okkar. Tilfinningin getur líka verið svipuð og við þvaglát því vefirnir liggja alveg þétt upp við þvagrásina. Til þess að láta þér líða betur ættir þú að pissa áður en þú hoppar upp í rúm til kynlífsiðkunar… já og svo legg ég til að þú fræðir bólfélaga þína í framtíðinni um þetta stórskemmtilega fyrirbæri.

Bestu kveðjur,
Ragnheiður Eiríksdóttir
hjúkrunarfræðingur