Saltneysla hjartasjúklinga?

Spurning:

Ég tek Zarafo sem á að eyða kólesterólinu, en mér þykir ákaflega gott að fá egg og beikon, að ég nú tali ekki um feitt saltkjöt. Hvað má ég syndga mikið? Sér ekki lyfið um að lækka kólesterólið? Í öðru lagi: af hverju eru heit böð slæm fyrir mig sem hjartasjúkling en góð fyrir mig sem baksjúkling. Hvort á ég að láta hjartað ráða eða bakið?

Svar:

Ég vann um árabil hjá Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði og þá voru svona mál uppi á hverjum degi. Eitt sinn sagði maður við mig þegar honum hafði verið ráðlagt að auka grænmeti í fæðu: Þorkell, það er enginn matur nema feitt ket! Lyfið þitt er mjög virkt og mörg lyf hafa sannað virkni sína og það hefur orðið mikil framþróun í lyfjagerð. Samt er ekki nema um þriðjungur hjartasjúklinga sem notar þessi nýju og góðu lyf. Þarna er ýmislegt sem við þurfum að skoða betur og kynna betur. Það er ýmislegt varðandi lífshætti sem við þurfum að hafa gát á. Það er t.d. hættulegt fyrir hjartasjúkling að neyta saltkjöts tvisvar í viku, það æsir upp innra þel æðanna og veldur samdrætti og það eru dæmi um að fólk hafi fengið hjartabilun og kransæðastíflu eftir góða máltíð, þannig að þetta er ekkert grín. Rétt er að gæta hófs daglega og fara varlega þegar boðið er til veislu. Það eru okkar almennu ráð. Blóðfita eykst eftir slíkar máltíðir, á því er enginn vafi. Þetta með böðin er deilumál. Í heitum böðum er mikil slökun og þau eru góð fyrir gigtarsjúklinga. Finnar, sem fara mikið í sauna, hafa rannsakað áhrif þess á hjartasjúkdóma. Í einni rannsókninni var sagt: Þegar líkaminn finnur að nóg sé komið á maður að drífa sig út úr saununni. Sama gildir um heitu pottana, maður má ekki gleyma sér þar, segjum í 20 mínútur, og þurfa að láta bera sig upp úr þeim! Þeir sem taka blóðþrýstingslækkandi lyf þurfa að gæta sín því að blóðþrýstingur lækkar við setuna í heita pottinum og hækkar stundum ekki nóg þegar farið er upp úr og yfirlið koma fyrir af þessum sökum.

Þorkell Guðbrandsson, hjartalæknir