Samband milli neyslu reykts kjöts og sykursýki í börnum

Spurning:

Sæl.

Ég hef heyrt að samband geti verið á milli þess að móðir neyti reykts kjöts á meðgöngu og sykursýki í börnum. Ég er gengin 11 vikur. Er vissara að sleppa jólahangikjötinu eða hamborgarhryggnum?

Kveðja.

Svar:

Sæl.

Nú er svarið náttúrulega of seint á ferð vegna jólanna, en þessi kenning var á lofti um tíma fyrir nokkrum áratugum. hins vegar eru allir læknarnir okkar sammála um það í dag að ekkert sé hæft í þessu, engin gögn styðja þessa kenningu. þetta er sjálfsagt hugsanlegt eins og hvað annað, einhvern tíma var líka haldið að kannski tengdist þetta því hversu lengi sveinbörn væru höfð á brjósti. þessi kenning með hangikjötið kom fram einhvern tíma vegna þess að einhverjum fannst að svo mörg börn með sykursýki væru fædd níu mánuðum eftir jól, en ef skoðað er yfirlit yfir fæðingardag sykursjúkra barna á Íslandi sést glöggt að það stenst engan veginn því dreifingin kemst ekki einu sinni nálægt því að standast þessa tilgátu. Sannleikurinn er hins vegar sá að enginn veit hvers vegna sum börn fá sykursýki en önnur ekki.

Kveðja,
Fríða Bragadóttir, varaformaður Samtaka Sykursjúkra.