Sambýlismaður minn er ýmist langt niðri eða á bleiku skýi

Spurning:

Sæl.

Ég er í vanda stödd þar sem sambýlismaður minn er búin að gefast upp á lífinu. Honum finnst allt tilgangslaust og vill fá að yfirgefa þennan heim, þegar hann er langt niðri en svo nær hann sér upp og allt er á bleiku skýi. Hann er búin að vera á Cipramil í fimm mánuði, heimilislæknirinn ávísaði því á hann. Hann var lyfjalaus fram að þeim tíma en vann tíu til fjórtán tíma á sólahring til þess að vera ekki heima og vera fyrir eins og hann segir.

Fyrst eftir að hann fór á lyfið og minnkaði vinnuna var hann mjög jákvæður en núna finnst honum lyfið ekki virka neitt. Getur verið að lyfið hætti að virka?

Er til einhver hópur aðstandenda sem að maður getur hitt? Ég veit í rauninni ekki hvernig ég á að höndla þetta, ég reyni að halda mínu striki en það er bara ekki svo auðvelt.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl vertu.

Já það er hópur aðstandenda hér við Túngötuna á fimmtudögum kl.17.30 og þú ert velkomin þangað.

Hefur maðurinn þinn leitað til geðlæknis eða á göngudeild geðdeildar á Landspítalanum við Hringbraut? Mér finnst ástandið hljóma þannig að það væri ráð að hann færi þangað til að meta stöðuna. Það er opið milli 8.00-23.00 en annars er vakthafandi læknir til staðar í húsinu eftir lokun.

Það getur verið bið en oftast er rólegast á milli 9.30 og 12.00.

Með kveðju,
Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi Geðhjálp.