Samfarastellingar á meðgöngu

Spurning:

Sæl.

Ég á von á barni með kærastanum mínum snemma næsta vor. Hversu öruggt er það fyrir móður að stunda kynlíf á meðgöngu og hvaða „stellingar” eru æskilegri fyrir móður en aðrar.

Kærar þakkir.

Svar:

Sæl.

Í flestum tilvikum er allt í lagi að stunda kynlíf fram á síðasta dag meðgöngunnar. Undantekningar eru ef konan fær ótímabæra fyrirvaraverki eða legvatnsleka. Best er að konan ráði ferðinni í vali á samfarastellingum og dýpt samfara. Flestum konum finnst best að vera ofan á, á fjórum fótum eða liggjandi á hlið við samfarir þegar líður á meðgöngu og maginn fer að stækka. Flestum konum finnst einnig óþægilegt að limur mannsins þrýsti fast á leghálsinn því hann er fremur viðkvæmur á meðgöngu. Stundum kemur fyrir að smáæðar í leghálsinum rofna við samfarir og þá blæðir smávegis eftir samfarirnar. Ef einungis er um litla blæðingu að ræða og henni fylgja engir verkir þarf ekki að hafa áhyggjur. Ekki er talið æskilegt að nota titrara inni í leggöngum á meðgöngu því það getur ert leghálsinn og komið af stað samdráttum – en útvortis eru titrarar í lagi.

Vona að þetta hafi svarað spurningu þinni.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir