Samsetning lyfja

Fyrirspurn:

Mig vantar að forvitnast aðeins varðandi lyf og samsetningu lyfja.
Ég er að taka Flúoxitin (Fontex) 20mg á dag að staðaldri, svo tek ég Paxal eftir þörfum.
Nú er ég á Doxytab sýklalyfjum líka. Ásamt þessu er ég svo að taka fjölvítamín án A og D vítamína, omega 3 og járn 100mg. Til að maginn sé í lagi þá tek ég Acetophilus. Að sjálfsögðu vil ég ekki taka of mikið af neinu og alls ekki eitthvað sem fer illa saman.
Einnig er búið að ávísa mér lyfinu Adartrel við fótaóeirð.
Er allt þetta í lagi? Má blanda þessu öllu saman?

Aldur:
30

Kyn:
Kvenmaður

Svar:

Sæl.

Fluoxetin (Fontex) og alprazolam (Paxal) verka á miðtaugakerfið með mismunandi hætti. Rannsóknir hafa sýnt fram á milliverkun þessara tveggja lyfja en fluoxetin hemur niðurbrot á alprazolam sem veldur auknum styrk síðarnefnda lyfsins í blóði og getur þannig valdið óæskilegum áhrifum. Sé sjúklingur á þessum tveimur lyfjum samtímis skal fylgjast með einkennum sem geta komið upp vegna of hás styrks alprazolams í blóði, s.s. syfja, svimi, hreyfiglöp, þvoglumælgi, lár blóðþrýstingur. Verði þessara einkenna vart ætti að hafa samband við lækni þar sem alprazolam skammt gæti þurft að minnka. Einnig eru önnur lyf í sama lyfjaflokki og alprazolam sem væri hugsanlega hægt að nota í staðinn þar sem fluoxetin hindrar ekki niðurbrot á þeim líkt og á alprazolam.

Milliverkun milli járns og doxycyclin (Doxytab) (sem og annarra tetracyclina) er vel þekkt en notkun þessara lyfja samtímis getur valdið minnkun í frásogi á báðum lyfjum og þar með ófullnægjandi verkun. Forðast skal inntöku járns á meðan doxycyklin meðferð er í gangi en ef nauðsyn krefur skal taka járnið inn 3 klukkustundum fyrir eða eftir inntöku Doxytab.

Adartrel ætti ekki að milliverka við ofangreind lyf miðað við núverandi upplýsingar.

Þórir Benediktsson
Lyfjafræðingur