Spurning:
Sæl Guðríður Adda.
Mig langar að spyrja hvort þú ert eitthvað inni í „samsettu fjölskyldunum“, þ.e. þegar nýr maður kemur inn á heimilið og væntingar mínar til hlutverks hans gagnvart börnunum mínum.
Mín saga er í stórum dráttum á þá leið að fyrir þremur árum byrjaði ég að vera með manni sem ég var yfir mig ástfangin af. Ég á þrjú börn, elsti er farinn að heiman, 12 ára stúlku og sú yngsta er að verða 6 ára.
Fyrst þegar við byrjuðum saman hafði ég aldrei upplifað að vera svona ástfangin. Ég var búin að vera skilin í 2 ár þegar við hittumst. Allt gekk hratt fyrir sig og við byrjuðum að búa u.þ.b. 6 mánuðum eftir að við hittumst fyrst. Við fórum að búa á mínu heimili. Fyrst gerir maður engar kröfur um að börnin og maðurinn smelli saman, því það voru jú við sem ákváðum að vera saman, en ekki börnin. Yngsta barnið var rétt ný orðið 3 ára og við héldum að pabbahlutverkið yrði ekki erfitt hvað það varðar. Stundum hafa komið ágæt tímabil, en hann kemst ekki inn í fjölskylduna. Ég sé um börnin mín og hann sér um sinn son þegar hann kemur til okkar. Nú er ástandið orðið þannig að samband hans við börnin mín er nánast ekkert. Þetta er farið að trufla okkar samband verulega, stundum finnst mér ég vera jafnmikil einstæð móðir og áður, nema núna er ég með stærra heimili.
Honum finnst hann ekki komast inn í þetta samfélag okkar, hann býr inni á okkur og honum finnst hann oft fyrir okkur. Stundum höfum við tekið ákvarðanir um að hann fari með litluna og lesi fyrir hana uppi í rúmi á kvöldin og nái einhverju sambandi. Hún vill ekki fara með honum upp í rúm og heimtar bara mömmu sína. Svo dettur þetta allt upp fyrir og hann er ekki í neinu hlutverki gagnvart þeim. Mínar dætur fara til pabba síns aðra hverja helgi og það hefur aldrei verið neitt vandamál. Samt er sú stutta búin að þekkja fósturpabba sinn helming af sinni ævi og man ekki eftir öðru en að hann hafi alltaf verið til staðar.
Hvað getum við gert?
Er ég með óraunhæfar kröfur til mannsins að hann gangi inn í fósturpabbahlutverkið?
Fyrst þetta hefur ekki gengið og það eru komin þrjú ár, gengur þetta þá nokkuð héðan af?
Hvernig getum við leyst þennann vanda okkar?
Með fyrirfram þökk.
Svar:
Komdu sæl og þakka þér fyrir spurninguna.
Þú veltir því fyrir þér hvort sambýlismaður þinn komi nokkurn tíma til með að ná sem fósturfaðir til barnanna þinna, og þá sérstaklega til þess yngsta sem man ekki eftir sér öðruvísi en að hann sé á heimilinu.
Stundum eru málin sem við þurfum að leysa aðeins önnur og til hliðar við þau sem við horfum aðallega á og erum að glíma beint við. Ég hygg að svo sé einnig í þínu máli.
Af bréfinu ræð ég að þú ættir ef til vill að leggja til hliðar, a.m.k um stundarsakir, tilraunir þínar til að gera sambýlismann þinn og dóttur að feðginum. Þess í stað þurfið þið hjónaleysin að leggja niður fyrir ykkur hver staða mannsins er á heimilinu. Hvernig sambandi hans við börnin þín verður svo háttað í kjölfarið, kemur „af sjálfu sér“ þegar þið tvö eruð búin að greina ykkar stöðu, leggja niður fyrir ykkur hvernig þið viljið haga sambandinu dags daglega og eruð komin vel í gang með að framfylgja þeim ákvörðunum, á hvern veginn sem það verður.
Það er oft nokkuð flókið þegar annar aðilinn flytur inn á heimili hins – sérstaklega ef börn eru þar fyrir. Þið eigið ykkur langa sögu sem fjölskylda, en samband þitt við manninn fékk tæplega svigrúm til að þróast í jafnvægi frá fyrsta ástarbrímanum, áður en hann fluttist inn í líf ykkar.
Aðkomumaðurinn (eða konan) lendir oft í því að vera eins og gestur á eigin heimili. Ef til vill má orða þetta með því að segja að valdahlutföllin séu ójöfn. Sá sem fyrir er ræður og hefur hið endanlega úrslitavald, og sá sem kemur þarf að laga sig að reglum heimilisins og væntingum hins, í stað þess að daglegar venjur þróist nokkuð samstíga með báðum aðilum.
Margir fara þess vegna þá leið að leigja eða selja íbúðir sínar og flytja saman í húsnæði sem þau eiga eða kosta bæði og koma að á nokkuð jöfnum forsendum. Værir þú tilbúin í slíkt? Þorir þú að fara frá og sleppa því húsnæði sem þú átt eða býrð í? Gætirðu séð það fyrir þér að þið deilduð heimili þar sem hann réði a.m.k jafn miklu og þú? Hvað með hann – flutti hann beint frá fyrri fjölskyldu og heim til þín? Eða á hann húsnæði annars staðar og ef svo er, í hvað nýtist það?
Bara það að fara í gegnum hugsun og samtal af þessu tagi getur hjálpað ykkur af stað svo þið áttið ykkur betur á stöðunni og því hvað í henni felst. Og áfram: Hver hugsar fyrir, ber ábyrgð á og vinnur dagleg heimilisverk? Hver aflar fjár og rekur heimilið? Kaupir þú matinn og það sem þú og börnin þín þurfa að auki? Ef svo er, í hvað ver sambýlismaður þinn því fé sem hann aflar? Hvað með bíla, tölvur og önnur tæki og tómstundir? Með öðrum orðum sagt, hvaða fyrirkomulag h
afið þið á verkaskiptinu og fjármálum til útgjalda heimilisins?
Getið þið talað saman um það án þess að ykkur sinnist og komist að sameiginlegri niðurstöðu um hvað hvort ykkar um sig á að gera á heimilinu, hvert fjárframlagið á að vera og hvernig eigi að verja því?
Ef þið getið ekki rætt þessi mál eða fundið á þeim einhvern flöt til samkomulags og málamiðlunar, þá er ólíklegt að málin breytist til batnaðar og frekar líklegt að þau þróist í þveröfuga átt.
En hvað sem því líður og hvort sem ykkur gengur vel að tala saman eða ekki, og áður en ástin hefur alveg slokknað og málin eru komin í slíkan hnút að varla verði úr honum rakið, þá ráðlegg ég ykkur eindregið að leita saman til fjölskylduráðgjafa sem allra fyrst og fá hann til að skoða málin með ykkur, lið fyrir lið.
Ég vona að ykkur gangi vel með þetta viðfangsefni.
Guðríður Adda Ragnarsdóttir, atferlisfræðingur.