Sáðlát en ekki fullnæging

Spurning:

Ég skrifa þér út af manninum mínum. Hann hefur átt við kynlífsvandamál að stríða í nokkur ár eftir að hann lenti í slysi. Mér finnst erfitt að sætta mig við stöðuna eins og hún er því hann getur ekki lifað eðlilegu kynlífi. Ég er ófrísk og við eigum fyrir einn gutta, en ég er þannig að þegar ég er ófrísk, er kynhvötin í hámarki, en samt þarf ég mínar pásur og mína hvíld. Hann aftur á móti þarf að vera að allavega 2-3 á dag, og hann hefur fengið fullnægingu tvisvar sinnum síðan að við byrjuðum saman, og það eru að verða 2 ár síðan. En þó svo að hann fái ekki fullnægingu, þá hefur hann sáðlát, óeðlilega mikið, og ef hann fær ekkert í viku eða lengur, fer að blæða hjá honum, og hann finnur fyrir óendanlegum sársauka. Hann vill ekki leyfa neinum lækni að krukka í vininum á sér og segir að fyrst að ég sé ófrísk, þá virki þetta alveg, en ég er ekki sátt. Því að ég vil ekki bara lifa kynlífi þegar ég ætla mér að verða ófrísk! Hvað eigum við að gera? Ég er búin að reyna að fá hann til að fara til læknis, en hann tekur það ekki í mál, ekki einu sinni í Reykjavík, þar sem enginn þekkir hann.

Kveðja,
Kynsvelt.

Svar:

Kæra Kynsvelt.

Þetta er verk fyrir manninn þinn að ganga í og það sem fyrst. Útskýrðu fyrir honum að það geti skipt hann öllu máli að draga ekki á langinn að láta meta hvaða skemmd hann hafi fengið og hvers kyns áverkinn sé sem hann hefur fengið. Þú verður að benda honum á að ástand hans geti versnað og haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar fyrir hann ef þetta dregst öllu lengur. Hann þarf að panta sér tíma hjá þvagfærasérfræðingi (sem eru karla-læknar eins og kvensjúkdómalæknar eru læknar kvenna). Það eru talsverðar líkur á að slíkur sérfræðingur (þú finnur þá á gulu síðunum í símaskránni) geti greint og bætt ástand hans. Eins og málin virðast í dag, stefnir í óefni fyrir hann og þar af leiðandi fyrir ykkur bæði, því þín mál leysast ekki nema hans séu fyrst leyst.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr. med.