Sæl.
Afsakið hvað þetta er langt.
Ég sef alltaf með svefngrímu og eyrnatappa þegar ég sef heima hjá mér, og sef yfirleitt mjög vel og vakna aldrei yfir nóttina.
Þegar ég sef hjá kærastanum mínum(sem hrýtur) sef ég líka með svefngrímu og eyrnatappa og heyri því ekkert í honum en samt er ég alltaf að vakna yfir nóttina(mörgum sinnum yfir eina nótt) og stundum vakna ég og næ ekki að sofna aftur fyrr en kannski eftir klukkutíma eða meira. Ég passa mig á að faðma eða kúra ekki þegar við erum sofandi af því það myndi gera allt ennþá verra og ég fer að sofa snemma bæði heima og hjá honum.
Jafnvel þegar ég er þreytt næ ég ekki að sofa í gegnum nóttina hjá honum og þetta er farið að angra mig mjöög mikið. Ég sef ca 2 nætur í viku hjá honum, stundum helgi, stundum virka daga en alltaf gerist það sama.
Hvert gæti ég leitað til að fá ráð við þessu eða hvað get ég gert. Er að pæla hvort þetta sé kannski kvíði af því að þetta gerist alltaf og þá er ég farin að kvíða fyrir því að vakna og þá vakna ég..
Hvað er best að gera, er orðin mjög þreytt á þessu.
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina
Góður nætursvefn er okkur geysilega mikilvægur, bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu. Rútína í kringum svefn og svefnvenjur eru okkur jafn mikilvæg og hjá börnunum. Mögulega er það að hafa áhrif að þú sefur stundum heima hjá þér og stundum hjá kærastanum, í öðru rúmi með önnur hljóð og þá nærðu ekki að slaka alveg á. Þannig væri reynandi að gista lengri tíma í einu og gá hvort þú „venjist ekki“ þessum aðstæðum.
Eins gætir þú leitað aðstoðar hjá þeim hjá Betri Svefn en þau bjóða uppá fræðslu um svefn og meðferð við svefnleysi, bæði í gegnum internetið en einnig er boðið uppá einstaklingstíma hjá sálfræðingum við svefnvanda.
Gangi þér vel
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur