Síðbúið breytingarskeið

Ég hætti á blæðingum 53 ára gömul og hafði alltaf reglulegar blæðingar fram að þeim tíma – og svo bara snögghætti ég. Og fann ekkert fyrir neinum óþægindum breytingarskeiðs, en nú 14 árum síðar er ég komin með öll einkenni breytingarskeiðs, finn oft fyrir kuldahrolli og svitakófi og viðkvæmni. Er þetta síðbúið breytingarskeið sem ég er að upplifa núna?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Einkennin sem þú lýsir geta vissulega verið einkenni breytingaskeiðs en líka svo margt annað.  Það er merkilega lítið vitað um breytingaskeiðið og afar persónubundið með hvaða hætti það birtist hjá konum.

Ég myndi fá skoðun og mat hjá lækni. það þarf að ganga úr skugga um að ekkert annað sé á ferðinni og  það er til dæmis hægt að mæla hormónaframleiðsluna hjá þér og meta svo út frá því hversu mikið þetta truflar þig í daglegu lífi hvað hægt sé að gera fyrir þig.

Gangi þér vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur