Sífelld þoka yfir auga, hvað er til ráða?

Spurning:

Tengdafaðir minn hefur sifellt þoku yfir hægri auga(hann er tileygður í hinu auganu),
það er sagt að hann þurfi að fara í aðgerð til að skipta um augnstain en að það séu 50/50 prósent likur að hún virki (er með áhyggjur að hann missi alla sjón). Hvað eru raunverulegar líkur á þessu ? Og gætur þú gefið mér meiri info um hvað þetta heitir og framvegis,

Svar:

Væntanlega er tengdafaðir þinn með það sem er kallað ský á augasteini. Þetta er ákaflega algengt fyrirbrigði í eldra fólki og er meðhöndlunin einfaldlega fólgin í því að skipta um augastein, þ.e. settur er plastaugasteinn í stað augasteinsins sem tekinn er. Þetta er algengasta aðgerð sem framkvæmd er hér á Íslandi, en u.þ.b. 1000 slíkar aðgerðir eru framkvæmdar á ári hverju. Þessar aðgerðir heppnast í flestum tilvikum mjög vel og eru afar öruggar. Í einstaka tilfellum getur áhættan verið nokkuð meiri og virðist eitthvað vera til viðbótar sem veldur því að augnlæknir hans telur að svo sé. Það er erfitt að segja til um hvað það kunni að vera nema með nákvæmri skoðun. Hins vegar er ljóst að ský á augasteini læknast ekki af sjálfu sér og á liklega eftir að rýra sjónin enn frekar með tímanum. Því er líklegt að hann þurfi fyrr eða síðar að láta skipta um augastein.

Bestu kveðjur og gangi ykkur vel.

Jóhannes Kári.