Sinadráttur á meðgöngu

Spurning:

Sæl Dagný.

Ég er komin 23. vikur á leið og er farin að vakna all oft á nóttunni við
hrikalegan krampa í kálfunum. Þetta er svo rosalega mikið að ég á erfitt
með að tárast ekki af sársauka.

Ég vinn sitjandi og stunda meðgöngujóga en mér finnst það hjálpa til við að
teygja á.

Hvað er til ráða? Vantar eitthvað í líkamann?

Ég er að taka inn vítaplús og er nýbyrjuð að taka 2 töflur af kalk og
magnesíum. Þarf ég að taka eitthvað annað inn?

Svar:

Sæl.

Það er oft erfitt að ráða við sinadrætti á meðgöngu. Kalk og magnesíum geta stundum hjálpað en það sem hefur reynst mörgum konum best er að borða banana, 1-2 stk, á hverjum degi. Eitthvað efni í þeim virðist draga úr þessum krömpum. Eins er gott að stunda jóga og gera teygjuæfingar fyrir kálfana áður en farið er í rúmið. Þú getur líka prófað að liggja á bakinu í 10 til 15 mínútur daglega með fæturna bogna upp á stól. Þegar þú stendur upp (hægt svo þig svimi ekki) teygir þú úr fótunum og slærð með flötum lófa aftan á kálfana og lærin nokkrum sinnum. Þetta örvar blóðstreymið í fótunum og getur dregið úr sinadráttum. Heitt bað fyrir svefninn getur líka hjálpað. Svo er mikilvægt að hafa aðeins hærra undir fótum þegar þú sefur og gæta þess að fatnaður þrengi hvergi að þér í nára eða yfir magann.

Vonandi duga þessi ráð þér eitthvað.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir