Sjáöldrin eru misstór?

Spurning:
Komið þið sæl og takk fyrir frábæran vef.

Ég hef alltaf haft mjög góða sjón, en fyrir um mánuði tók ég eftir því að sjáöldrin hjá mér eru misstór, það fer eftir birtu stigi hve mikill munurinn er. Ég get ekki alveg gert mér grein fyrir því hvort annar augasteinnin hafi stækkað eða hinn minnkað (veit ekki hversu stórir þeir voru fyrir). Ég vinn mikið við tölvur, en virðist ekki geta verið lengi við þar sem að skjárinn fer að flökta, mér verður illt í augunum og jafnvel svimar og verður flökurt (þar helst að slökkva ljósin í smá stund svo það lagist). Er það eðlilegt að sjáöldrin séu misstór, eða að þau stækki allt í einu (annað eða bæði)? Er þetta eitthvað sem þarf að hafa áhyggjur af eða leita læknis? (Ég bý úti á landi þar sem ég þarf að fara langt til að fara til augnlæknis, því vil ég ganga úr skugga um að ég þurfi í raun að fara áður en ég fer að „standa“ í því.)

Svar:
Sjáöldur geta verið misstór án þess að eitthvað sé í ólagi. Það er þó ekki sjálfgefið. Fer það nokkuð eftir því hvort munurinn er meira áberandi í rökkri eða í birtu. Í fyrrnefnda tilvikinu á annað (það minna) erfiðara með að víkka út, en í því seinna á annað (það stærra) erfiðara með að dragast saman. Ljósabúnaður við tölvur er mikilvægt, einkum að ljós speglist ekki í augun. Ef það gerist verður þú fljótt þreytt í augunum. Væntanlega er orsökin fyrir sjáaldramuninum sárasaklaus, en í einstaka tilfelli geta verið alvarlegri orsakir sem þarf að útiloka. Mér finnst hiklaust að þú ættir að leita læknis til að leita orsaka þessa. Þú verður líka miklu rólegri á eftir!

 Bestu kveðjur – gangi þér allt í haginn.
Jóhannes Kári