Sjónskerðing

Spurning:

30 ára – kona

Góðan daginn.

Mig langar að forvitnast um sjónskerðingu. Ég er með eina 5ára stúlku sem er með gleraugu 5,75 að stirkleika, var með 5,5 fyrir ári síðan. Spurningin mín er hvenær/hvernig flokkast sjónskerðing? Flokkast 5,75 undir sjónskerðingu?

Svar:

Sæl.

Styrkleiki gleraugna er í samræmi við svokallað sjónlag augnanna.  Sjónlagið er svo vegna þess að augun okkar eru mismunandi að lögun.  Þau eiga að vera nokkurn veginn eins og fótbolti í laginu.  Sumir eru hins vegar með of stutt augu (eins og einhver hafi keyrt aftan á þau)og kallast það fjarsýni.  Þessir einstaklingar sjá illa í fjarska, en sérstaklega illa nálægt sér.  Sumir eru með augu í laginu eins og bjargfuglsegg, þ.e. of long.  Þetta kallast nærsýni og sjá þessir einstaklingar illa langt í burtu en betur nálægt sér.  Við fjarsýni eru notuð svokölluð safngler, sem er í raun stækkunargler.  Þau eru í styrkleikanum +0,5 upp í jafnvel +12.  Nærsýnisgleraugu eru með svokölluðum dreifiglerjum (í raun smækkunargler).  Þau eru í styrkleikanum -0,5 upp í jafnvel -20.  Mér heyrist barnið þitt vera með fjarsýni, þar sem þú nefnir ekki minus fyrir framan töluna.  Fjarsýni upp á +5,75 er mikil fjarsýni og þarf stúlkan sjálfsagt að nota gleraugun við öll verk.  Með gleraugun er hún þó líklega með eðlilega sjón.  Hugtakið sjónskerðing er oftast notað yfir skerðingu á sjón sem EKKI er hægt að laga með gleraugum.  Slíkt er sem betur fer fátítt hjá börnum.  Þó er ekki óalgengt, sérstaklega hjá fjarsýnum börnum, að annað augað sjái verr en hitt augað, jafnvel með glerjum.  Slíkt er kallað letiauga (amblyopia) og þarf stundum að þjálfa þau augu sérstaklega með því að binda fyrir heilbrigða augað.  Þú nefnir það ekki í bréfi þínu og augnlæknirinn hefði að sjálfsögðu greint þér frá því hefði það verið til staðar.

 Ég vona að þetta hafi svarað spurningu þinni.

 Bestu kveðjur,

 Jóhannes Kári.