Spurning:
Hæ, hæ.
Ég er 19 ára og er komin 19 vikur á leið. Ég á í svolitlum vanda en hegðun mín hefur breyst mjög mikið. Stundum veit ég ekki hvort ég er að koma eða fara, ef ég er ekki hlæjandi er ég grátandi, ég verð einnig mjög æst yfir litlu sem engu, ég hef það mjög gott og ég skil ekkert í sjálfri mér að haga mér svona og hef gert margt til að venja mig af þessu en ekkert gengur. Þessi hegðun er alls ekkert lík mér en ég er frekar hress og róleg að eðlisfari. Ég er orðin svolítið smeyk með þessar skapsveiflur. Og langar mig því til að vita hvort þetta fylgir meðgöngunni og þá hvort þetta eigi ekki eftir að skána, og hvort eitthvað sé hægt að gera í þessu, og hvort ég eigi að tala um þetta við ljósmóðurina eða lækni. Því ég er orðin mjög þreytt á þessu sjálf og hvað þá þeir nánustu.
Takk fyrir.
Svar:
Skapsveiflur eru þekkt fyrirbæri á meðgöngu en ef þær ganga úr hófi er skýringarinnar oft að leita í sálrænum þáttum eins og þunglyndi eða kvíða. Best væri fyrir þig að spjalla um þetta við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni. Hún getur mögulega komið auga á orsakaþættina og þá bent þér á úrræði eða vísað þér til viðeigandi meðferðar ef á þarf að halda.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir