Skemmdar tennur og lyf?

Spurning:
Sæl/ll.
Berist til lyfjafræðings og tannlæknis og allra þeirra er mál þetta varðar. Þannig er að ég fór til tannlæknis í gær. Og þá kom í ljós að ég er með 22 skemmdar tennur. Vegna hvers kunna margir að spyrja. 22 skemmdar tennur. Það er svolítið mikið.  Hvað veldur þessu? Ég er á lyfjum sem eru Seroxat, Seroqel, Largactil og Imovane. Er það málið að þessi lyf séu að valda mér þessum hörmungum? Mér finnst þetta ömurlegt.
Tannlæknirinn minn gerði við þrjár tennur. Fyrir viðgerðir á þessum þrem tönnum greiddi ég 45.000 kr,-.  Hvað veldur þessu?  Erum við að tala um það að ég þurfi að borga heilar 300.000,00 kr,- fyrir allar þessar 20 tennur? Finnst ykkur þetta hægt?  Fyrir utan þennan sársauka sem allar þessar aðgerðir hafa í för með sér. Mig langar að spyrja viðkomandi aðila hér, hvernig þetta má vera? Hverju veldur að ég er með allar þessar 20 skemmdu tennur? Ég bursta tennur mínar tvisvar á dag, afhverju eru þessar skemmdir? Síðan langar mig að vita það hvernig og hvort ég þurfi ekki sjálfur að borga fyrir allar þessar skemmdir?
Með fyrirfram þökk.

Svar:
Bæði Seroxat og Seroquel geta valdið munnþurrki.  Munnþurrkur eykur einmitt verulega líkurnar á tannskemmdum. 
Með góðri munnhirðu og reglulegum heimsóknum til tannlæknis er oftast hægt að fyrirbyggja þetta. Ef það dugar ekki til, eins og er að sjá á fyrirspurn þinni, þarft þú að ræða það við lækninn og tannlækninn og fá betri ráð hjá þeim.  Hvort Tryggingastofnun tekur þátt í kostnaði við tannlækningar hjá þér þarft þú að ræða við tannlækninn. Það væri í hans verkahring að sækja um endurgreiðlu.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur