Góðan daginn
Ég á í þrálátu vandamáli með skinnið á fingum og í lófum. Ég blossa upp með mikinn þurrk og húðin springur og það blæðir úr opnum sárum. Þetta hefur varað í mörg ár, mismikið þó.
Ég hef fengið sterakrem hjá lækni, borið rakakrem og núna síðast er ég að bera E45 kremið á hendurnar.
Ég gæti sent inn myndir en ég sé ekki neinn link til að senda inn myndir.
Með kærri kveðju
Sæl/ll og takk fyrir fyrirspurnina
Þurrkur á lófum og fótum er hvimleitt en um leið algengt vandamál sem mörgum finnst versna við veðrabreytingar og þá sérstaklega á vorin og haustin. Ekki bætir úr skák allur handþvottur og spritt sem er þó nauðsynlegur um þessar mundir.
Grundvallaratriði í þessu vandamáli er að bera alltaf á sig góðan handáburð í hvert sinn sem hendur hafa verið þvegnar og hann á helst að vera laus við öll ilmefni, litarefni og parabena. Handsápan sem notuð er á að vera með sýrustig sem hentar húðinni (Ph gildi ca 4,5-5,5) og laus við sömu efni og áður eru talin.
Ef þú lagast ekki þarf að meta hvort það vanti mögulega einhver vítamín eða steinefni sem hægt er að bæta í mataræðið þitt til þess að styrkja húðina.
Gangi þér vel
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur