Skjálfti eftir fæðingu

Spurning:

Er algengt að fá skjálfta rétt eftir fæðingu? Eftir að ég fæddi drenginn minn, hristist ég og kipptist til og missti nærri barnið útúr höndunum, strax eftir fæðingu hans. Er einhver sérstök ástæða fyrir þessu (hann var mjög stór) og er þetta eitthvað sem hefur varanleg áhrif á mann? Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að síðan hann fæddist hef ég tvisvar greinst með alvarlegt þunglyndi og datt því í hug að það hefði kannski eitthvað gerst í fæðingunni sem veldur því. Drengurinn er mitt 3. barn og ég fékk ekki svona skjálfta eftir fyrri fæðingar.

Með kveðju.
Þunglynd móðir.

Svar:

Sæl.

Vonandi ert þú að fá hjálp við þunglyndinu því það hefur svo sannarlega neikvæð áhrif á lífshamingju fólks. Þú getur prófað að tala við heimilislækninn þinn eða göngudeild geðdeildar og fengið stuðning og e.t.v. lyfjameðferð sem bætir líðan þína.

Hvað varðar skjálftann eftir fæðinguna, þá er hann ekki undanfari þunglyndisins. Skjálfti kemur oft eftir hraðar eða mjög erfiðar fæðingar sem eins konar spennufall líkamans. Hins vegar getur erfið fæðing eða neikvæðar aðstæður við fæðingu eða í umhverfinu ýtt undir þunglyndi sem svo versnar oft ef barnið er óvært og mamman fær ekki næga hvíld og hjálp. Oft verður þetta vítahringur því barnið skynjar vanlíðan móðurinnar og verður óværara þannig að þetta vindur upp á sig.

Vertu góð við sjálfa þig og fáðu hjálp.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir