Skyldleiki foreldra og hugsanlegir erfðagallar

Spurning:
Halló!

Ég var með stelpu fyrir ekki svo löngu, og við komumst að því að við vorum þremenningar (afar okkar voru bræður). Við vorum rosalega ástfangin, og ætluðum að vera saman en svo kom upp spurningin sem ég vil spyrja þig að:

Hvaða áhrif hefur skyldleiki á fóstur og þá sérstaklega spurningin um hverjar eru líkurnar á fötlun eða öðrum sjúkdómum? Hvað geta einstaklingar verið mikið skyldir og átt börn án þess að líkurnar aukist?

Við erum reyndar hætt saman, en þessi spurning situr ennþá í huga mér.

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Komdu sæll.

Í því tilviki að erfðasjúkdómur væri í ykkar sameiginlegu ætt, þ.e. einhver erðfabundinn galli, þá væri hann annað hvort ríkjandi eða víkjandi. Í báðum tilfellunum væri áhætta á að slíkur sjúkdómur kæmi fram og yrði að meta það út frá hvaða sjúkdóm um væri að ræða og hvaða þýðingu hann gæti haft fyrir barnið. Slíkt yrði metið í hverju einstöku tilfelli. Ef engir þekktir sjúkdómar væru fyrir hendi (e.t.v. breytir bætt erfðaþekking vegna erfðarannsókna hér á landi við upplýsingum sem við getum nýtt okkur í framtíð og yrðum þá að taka tillit til) þá væruð þið að öðru leyti ekkert í meiri áhættu að geta af ykkur afkvæmi. Jákvæðir þættir gætu komið til einnig en ég ætla ekki út í það núna að svo komnu máli.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr. med.