Slæm húð og getnaðarvarnapillan?

Spurning:
Heil og sæl þið ykkar sem þetta lesið.  Mikið er gott að það er hægt að leita til einhvers eins og ykkar. Takk fyrir það.
Ég hef verið mjög slæm í húðinni, einkum á enni og í kinnum. Ég var um tíma á getnaðarvarnarpillu sem heitir Diane mite og reyndist hún mér vel varðandi þetta húðvandamál. Ég er samt sem áður ekki í föstu sambandi og er ekki að sofa hjá út um allt… mér hefur því ekki verið vel við að taka inn pilluna og öll þau hormón sem fylgja henni. Núna er um hálft ár síðan ég var á henni síðast og er óhætt að segja að ég sjái mikinn mun á húðinni á mér. Mig langar stundum ekki að fara á fætur á morgnanna þegar ég á slæma „húð daga“… Ég ákvað því að fara aftur á pilluna til að freista þess að þetta lagist nú allt saman aftur. Ég sagði vinkonu minni frá því að ég væri að velta þessu fyrir mér og hún var þá með MJÖG slæmar sögur af akkúrat þessari pillu. Sagði meira að segja að læknir sem hún vissi af hefði ekki viljað skrifa uppá þessa tegund fyrir einhvern úr hans fjölskyldu því hann teldi þessa tegund vera eitur…. þetta voru mjög stór orð sem fóru verulega fyrir brjóstið á mér. En ég er samt sem áður að verða brjáluð á þessu ástandi sem húðin á mér er í og vil um fram allt laga hana. Nú veit ég að Diane mite hefur góð áhrif á húðina á mér og ég verð betri en mér er samt ekki vel við að taka inn e-ð sem einhverjir kjósa að kalla eitur. Ég á tvær vinkonur sem hafa líka verið á þessari pillu, önnur í 4 ár og hún á barn í dag og er eins heilbrigð og hugsast getur. Spurningin er því: Er Diane mite verri pilla á einhvern hátt en aðrar?   
Bestu þakkir fyrir að lesa þetta.

Svar:

Fyrst ber þess að geta að Diane mite er ekki eiginleg getnaðarvarnartafla. Ábendingar fyrir notkun Diane mite eru svokallaðir andrógenháðir kvillar í húð kvenna. Með andrógenháðir er átt við að cýpróterón sem er annað virka efnið í töflunum vinnur gegn andrógen hormónum sem oft eru kallaðir karlhormónar. Þarna er um að ræða gelgjubólur (acne) á háu stigi, eins og er að hrjá þig. Einnig er átt við hárvöxt í andliti, feita húð og ákveðna tegund hárloss. Lyfið er einnig notað sem getnaðarvörn fyrir konur með þessa sjúkdóma. Það er því ekkert óeðlilegt að nota Diane mite þó svo að ekki sé þörf á getnaðarvörn.
Lyfið inniheldur einnig etinýlestradíól sem er langalgengasta kvenhormónið í getnaðarvartöflum þeim sem eru á markaði hér.
Nú er það svo að engin lyf sem við tökum inn eru fullkomlega hættulaus, frekar en annað það sem við látum inn fyrir okkar varir eða verðum fyrir í daglegu lífi. Það er þekkt með getnaðarvarnarlyf, að Diane mite meðtöldu, að hætta á blóðtappa, ákveðnum tegundum krabbameins og fleiri sjúkdómum eykst eitthvað við töku þeirra. Þess vegna ber að huga að áhættuþáttum þessara sjúkdóma áður en kona hefur töku lyfjanna og reglulega meðan á töku þeirra stendur. Í því sambandi er vert að hafa í huga að þessir sjúkdómar eru mun sjaldgæfari hjá ungum konum eins og þér, en þeim sem eldri eru. Það er þó alls ekki þar með sagt að vinkona þín fari með neitt fleipur. Hún gæti verið meðal þeirra fáu sem haf a lent í slæmum aukaverkunum af lyfinu.
Ég hef ekki heyrt því haldið fram að Diane Mite sé hættulegri en venjulegar getnaðarvarnatöflur og eitur eru þær alls ekki. Þú skalt þó nefna þessar áhyggjur þínar við lækninn þinn og ég hvet þig til að taka mark á því sem hann hefur að segja. Það er svo þitt að ákveða hvort þú tekur lyfið við þínum sjúkdómi.
 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur