Slef hjá barni

Hæ,
Sonur minn er 16 mánaða, 12 mánaða leiðrétt, og er byrjaður að slefa töluvert meira en hann er vanur. Er það eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af?
Þetta er alveg svakalega mikið slef og hann bleytir í gegn um 6-7 smekki og samfellur á dag!
Hann er ekki að fá upp tennur og þegar hann tók síðast tennur þá var slefið töluvert minna en það er núna.

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina,

Oft er slefmyndunin eðlileg og meinlaus, til dæmist er algengt að hún aukist við tanntöku eins og þú nefnir. Algengt er til að mynda að börn taki bæði fremri jaxla og augntennur í kringum þann aldur sem sonur þinn er nú, og getur slefmyndun þá jafnvel byrjað áður en merki um nýja tönn eru sjáanleg.

Hinsvegar er erfitt er að leggja mat á þetta án skoðunnar og frekari upplýsinga. Mjög mikið slef getur bent til erfiðleika við kyngingu og/eða eymsla í munnholi, svo sem vegna hálsbólgu eða hand-, fóta- og munnsjúkdóms. Því tel ég ráðlegt að fá skoðun hjá lækni ef um mikla aukningu á slefi er að ræða án augljósra skýringa og gott er að miða við að leita til Heilsugæslu ef foreldrahjartað telur eitthvað vera óeðlilegt fyrir sitt barn.

Gangi ykkur sem allra best.

Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur