Spurning:
Sælt veri fólkið!
Ég sleit hásin fyrir rúmum mánuði og hef síðan verið að leita, aðallega á netinu, að upplýsingum um hvort mataræði gæti flýtt fyrir bata. Það eina sem ég hef fundið er að E-vítamín gæti gert eitthvað gagn. Vitið þið eitthvað meira um þetta?
Ps. Þó það sé óþarfi að nefna það í sjálfri fyrirspurninni þá hyggst ég fara til Svíþjóðar í mars 2004 og ganga þar á skíðum, Vasagönguna sem er 90 km, því er ég að reyna að gera það sem hægt er til að flýta bata.
Með fyrirfram þökk,
Svar:
Blessaður!
Þú segist hafa slitið hásinina. Þá leikur mér forvitni á að vita, hver var undirliggjandi orsök? Fór hún alveg í sundur eða að hluta? Varst þú búinn að vera aumur í hásininni lengi áður eða bar þetta brátt að? Ástæðan fyrir því að ég varpa þessum spurningum fram er að mataræði hefur í raun lítil áhrif á hvort hásinin grær eða ekki (svo framarlega sem maður borðar sæmilega próteinríkan og vítamínríkan mat) en það sem skiptir meira máli er að fyrirbyggja frekari vandamál með hásinina, þ.e. að hún gefi sig ekki aftur. Venjulega getur maður farið að stunda íþróttir aftur að fullu u.þ.b. 3 mánuðum eftir hásinaslit. Mikilvægast er að fyrirbyggja að hásinaslit gerist aftur. Hásin er hluti af starfseiningu sem samanstendur einnig af kálfvöðvum og hælbeini. Hásin þolir vel átak við hreyfingu upp og niður en langvint hliðartog eykur álag á sinina og hættu á bólgu þannig að sinin getur trosnað og auðveldlega slitnað. Hásinameiðsl eru ekki að fullu meðhöndluð fyrr en tekið hefur verið á öllum undirliggjandi orsökum fyrir álagi á sinina. Í því sambandi má nefna: innhalla eða úthalla á fæti og illa teygða kálfvöðva. Ég tel mikilvægast að þú hugir að þeim þáttum sem urðu til þess að sinin slitnaði og fyrirbyggir frekari hásinameiðsli og þá sérstaklega með það í huga að þú ert að fara út í þrekvirki sem er Vasagangan í Svíþjóð. Bendi ég þér á slóðina: http://www.simnet.is/has/ en þar er grein undir fróðleikur um hásinameiðsl.
Kveðja,
Eyjólfur Guðmundsson
heilsugæslulæknir
Heilsugæslu Hlíðasvæðis