Slíðmhúðin í leginu of þunn?

Spurning:
Heil og sæl og takk fyrir frábæran vef! Þannig er mál með vexti að við uppgötvuðum um daginn að ég væri þunguð en ég missti það aðeins eftir nokkra daga vegna þess að slímhimnan var of þunn hjá mér. Það sem mig langar til að vita er hvort hægt sé að hjálpa slímhimnunni að verða þykkri og ,,vistlegri“ annaðhvort áður eða eftir að getnaður á sér stað. Ég er að taka inn Pregnacare og veit ekki hvort það þarf kannski að taka inn einhver aukavítamín til að hjálpa slímhimnunni? Einnig langar mig að vita hvort auknar líkur séu á því að ég geti ekki haldið fóstri/fósturvísi í annað skipti fyrst ég gat það ekki í fyrsta skiptið? Ef svo er, er þá hægt að gera eitthvað til að minnka líkur á því?
Takk fyrir

Svar:
Það eru hormónin östrogen og progesteron em sjá um viðhald slímhúðarinnar í leginu og getur skortur á þeim orðið til þess að slímhúðin nær ekki að þykkna nóg fyrir meðgönguna. Þetta gerist sérstaklega hjá konum sem eru að nálgast breytingaskeiðið en getur einnig gerst hjá yngri konum vegna tímabundinna hormónatruflana, t.d. í kjölfar langrar pillunotkunar. Hafi læknir greint að orsök fósturlátsins hafi verið of þunn slímhúð ætti hann að senda þig í rannsókn á orsökum þess og gefa þér viðeigandi meðferð til að slímhúðin þykkni nægilega til að halda fósturvísi. Ennfremur eru náttúruefni á borð við hindberjalauf og rauðsmára talin efla slímhúð legsins og bæta frjósemi. Þetta fæst í heilsubúðum sem te eða mulið í duft í hylkjum.   Gangi þér vel.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir