Slit á maga eftir meðgöngu, hvað er til ráða?

Spurning:

Hæ og takk fyrir frábæra síðu!!

Hún hefur hjálpað mér mikið, en það er eitt sem mig langar að spyrja ykkur að. Ég fæddi strák 10. júlí síðastliðinn og á meðgöngunni slitnaði ég mjög mikið enda þyngdist ég líka á við 10 manns. Ég þyngdist kannski um 4-5 kíló á 2-3 vikum. Ég leyfði mér að éta eins og svín!! En núna er ég búin að taka mig á og léttist um 5 kíló í síðustu viku. En ég held samt áfram að slitna á maganum. Er það í lagi? Svo eftir að ég átti fór ég að slitna á lærunum og upphandleggjunum líka!! Hvað á ég að gera??

Takk fyrir

Svar:

Komdu sæl.

Þakka þér fyrirspurnina.

Ekki tel ég það eðlilegt að þú fáir húðslit ef þú ert búin að eiga þitt barn og ert þar að auki að léttast. Slíkt gerist þegar húðin þenst út á skömmum tíma eins og gerðist á meðgöngunni.

Ég ráðlegg þér að leita til húðsjúkdómalæknis varðandi þetta vandamál þitt. Eða leita til sérfræðings í innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum þar sem þetta gæti verið röskun á hormónum.

Kveðja,
Hrönn Guðmundsdóttir, hjúkrunarforstjóri Laserlækningu